139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:00]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Við málsmeðferð þessa máls, frú forseti, í september sl. var farið nákvæmlega eftir lögum um landsdóm í allri meðferð. Það er gert ráð fyrir því í lögum um landsdóm að landsdómur fari með og dæmi mál þau er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherra. Ákvæðið í þessari breytingartillögu stílar inn á það. Það er tímamarkið þegar málið byrjar í mínum augum. Engu að síður þarf, hv. þingmaður, að gefa út sérstaka ákæru og þar er saksóknari Alþingis bundinn af málshöfðunarákvörðun Alþingis. Þetta einfalda atriði snýr að formi, að réttaröryggi og milliliðalausri málsmeðferð þannig að hér er frekar verulega verið að tryggja réttarstöðu, ef eitthvað er, en hitt.