139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fellst ekki á þessi rök. Þá hefðum við átt að fá niðurstöðu í þetta mál löngu fyrr og flytja það fyrr. Hér segir hv. þingmaður að það þurfi að kjósa nýja fulltrúa Alþingis í landsdóm, nýjan landsdóm. Það er sama lagið þar. Ég hef ekki séð neinar hugmyndir um hvernig það verður gert. Samt er sú dagsetning að skella á. Hún er að detta á okkur. Maður spyr sig hvers lags vinnubrögð þetta séu yfirleitt.

Hv. þingmaður svaraði því ekki hvort allir væru jafnir fyrir lögum og hvort gætt hefði verið ákvæðis stjórnarskrárinnar um að öllum bæri réttur til að fá „úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma“. Þetta dregst allt einhvern veginn og það er verið að breyta lögum og umgjörð réttarhaldanna allan tímann sem líður. (Forseti hringir.) Það er ekki einu sinni búið að kæra.