139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í ljósi forsögu þessa máls er í rauninni ótrúlegt að hér á Alþingi séu enn þá þann 3. maí 2011 hv. alþingismenn að ræða um landsdómsmálið yfir Geir H. Haarde. Ég ætla að leyfa mér að rifja það upp að þegar hv. þm. Atli Gíslason mælti fyrir þingsályktunartillögu um að ákæra skyldi fjóra fyrrverandi hæstv. ráðherra höfðu hann og meiri hluti þingmannanefndarinnar uppi miklar heitstrengingar og fullyrðingar um að engin ástæða væri til að breyta núverandi lögum um landsdóm. Síðan hv. þingmaður mælti fyrir þingsályktunartillögunni hafa tvívegis verið lögð fram frumvörp á Alþingi til breytinga á landsdómslögunum. Nú ræðum við seinna frumvarpið sem meiri hluti saksóknarnefndar flytur hér, frumvarp sem er ætlað að reyna að tryggja að þessi réttarhöld geti gengið sinn veg eins og hv. flutningsmenn og þeir sem samþykktu að genginn yrði þessi vegur samþykktu hér fyrir allmörgum mánuðum. Þá var tekin ákvörðun um það í fyrsta skipti í sögu Alþingis Íslendinga að boða til pólitískra réttarhalda á Íslandi. Það voru pólitísk réttarhöld sem voru ákveðin á Alþingi Íslendinga. Ég leyfi mér að fullyrða að þann dag sem ákveðið var að stofna til þeirra hafi virðing Alþingis sokkið lægra en önnur dæmi eru um í sögu þessarar virðulegu stofnunar. Þann dag sem sú þingsályktunartillaga var samþykkt tóku íslensk stjórnmál á sig ógeðfelldari mynd en áður hefur sést í atkvæðagreiðslum á Alþingi. Þá tóku sig til fjórir hv. þingmenn Samfylkingarinnar og ákváðu að greiða atkvæði eftir flokksskírteinum í stað þess að greiða atkvæði um efni málsins. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins tókum ekki þátt í þeim leik. Við töldum að sá málatilbúnaður sem hafður var uppi á hendur hæstv. fyrrverandi ráðherrunum fjórum væri svo veikur að ekki væri rétt að stofna til þessara réttarhalda. Ég lýsti því yfir í ræðu sem ég flutti á þeim tíma að ég væri sammála því sem fram kæmi í ræðu hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, að það væri verulegur vafi á því að málatilbúnaður sá sem þá lá fyrir stæðist lágmarkskröfur mannréttindareglna, meginreglur sakamálaréttarfars og þær grundvallarreglur sem fylgt er í réttarríkjum um réttmæta málsmeðferð. Ég stend við þau orð mín í dag og ítreka þau.

Ég leyfi mér að halda því fram að ekki hafi málið verið burðugt fyrir hjá þeim sem mæltu fyrir því og börðust fyrir því að gripið yrði til pólitískra réttarhalda á þeim tíma, sérstaklega ekki hjá þeim fjórum hv. þingmönnum sem greiddu atkvæði með flokksskírteinunum og skildu hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, einan eftir í málinu og létu sig hafa það að draga hann einan fyrir dóm, heldur hefur þetta mál sem ekki var burðugt þá bara versnað. Málsmeðferðin er þeim þingmönnum til fullkominnar skammar og ekki síður þeim sem hafa haldið áfram með málið frá þeim tíma.

Þrátt fyrir að hv. þingmaður og formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, hafi lýst því yfir þegar hann mælti fyrir þingsályktunartillögunni á sínum tíma að ekki væri ástæða til eða þörf á að gera breytingar á landsdómslögunum hefur nú í tvígang verið lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögunum um landsdóm. Það fyrra lagði fram hæstv. innanríkisráðherra, þá hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra, frumvarp sem taldi einar átta greinar. Sá tillöguflutningur var með hreinum ólíkindum. Ég hygg að hvergi á byggðu bóli, a.m.k. ekki í réttarríkjum hins vestræna heims, hafi önnur eins vinnubrögð átt sér stað og okkur birtust á þeim tíma. Þá hafði ákæra verið gefin út af hálfu Alþingis á hendur fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, og hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra ákvað að gera tilraunir til að breyta leikreglum í hinum pólitísku réttarhöldum í miðjum leik, eftir að ákveðið hafði verið að gefa ákæruna út. Það hvernig að þeim tillöguflutningi var staðið hlýtur að vera algjört einsdæmi sem vonandi verður aldrei endurtekið. Það kemur fram í greinargerð með því frumvarpi sem þá var lagt fram og liggur enn fyrir Alþingi að frumvarpið hafi að vísu verið samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu en það byggðist á tillögum sem forseti landsdóms sendi ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 21. október 2010.

Síðar kom fram að það hafi ekki bara verið forseti landsdómsins sem hafði frumkvæði að því að gera breytingar á réttarfarsreglum og leikreglum hinna pólitísku réttarhalda eftir að tekin hafði verið ákvörðun um að gefa út ákæruna, heldur hafði saksóknari Alþingis einnig flutt hana í þeim búningi sem þar birtist. Það voru sem sagt dómsmálaráðherra landsins, forseti landsdóms og saksóknari Alþingis sem tóku höndum saman um að reyna að breyta landsdómslögunum í pólitískum réttarhöldum sem ætlað var af meiri hluta Alþingis að koma lögum og reglum yfir fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og dæma hann til refsingar vegna meintra brota í störfum.

Þessi málsmeðferð er með algjörum ólíkindum að mínu mati og stenst engan veginn neitt sem kalla mætti réttaröryggi eða mannréttindi. Það er einmitt það sem menn hafa verið að tala um hér. Hv. þm. Atli Gíslason, sem flytur þetta frumvarp sem síðar er fram komið vegna þess að það frumvarp sem hæstv. innanríkisráðherra lagði fram er ekki nógu gott, heldur því fram að með því að breyta núgildandi landsdómslögum með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um sé verið að tryggja réttaröryggi sakborningsins í málinu sem er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra.

Ég held að menn ættu að tala varlega um réttaröryggi í tengslum við þetta landsdómsmál. Það koma t.d. vöflur á menn þegar þeir eru spurðir hvort hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra hafi verið ákærður. Það liggur ekki fyrir formleg ákæra í málinu, en það hefur verið samþykkt á þingi að gefa út ákæru samkvæmt efni þeirrar þingsályktunartillögu sem hér var staðfest og samþykkt. Það leikur vafi á því hvort meðferð málsins sé hafin. Það er ástæðan fyrir því að 1. gr. frumvarpsins sem hæstv. innanríkisráðherra lagði fram og mælti hér fyrir er breytt með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Það er svo sem í takt við annað í tengslum við þetta mál að, eins og rakið hefur verið í ræðum hv. þm. Birgis Ármannssonar og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, Geir H. Haarde var skipaður verjandi eftir dúk og disk. Geir H. Haarde þurfti meira að segja að ganga svo langt að leggja fram kæru til að berjast fyrir því að sér yrði skipaður verjandi til þess að hann gæti borið hönd fyrir höfuð sér vegna þeirra atriða sem honum er gefið að sök að hafa brotið (Gripið fram í: Hugsanlega.) af sér, hugsanlega, í þeim ákærum sem hér eru eða voru til meðferðar í tengslum við þetta landsdómsmál.

Þegar menn tala um réttaröryggi er rétt að fara yfir það. Réttaröryggið er ekki merkilegra og meira en svo að þeir sem taka ákvörðun um ákæru fyrir landsdómi eru sömu aðilarnir, þ.e. meiri hluti Alþingis, og kjósa saksóknara yfir sakborningnum. Það eru sömu aðilarnir og koma hér fram á Alþingi eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að ákæra manninn og þeir reyna, þessir sömu menn, að breyta leikreglum sem um málsóknina og réttarhöldin gilda í miðjum leik og það er þetta sama fólk sem líka kýs þá dómara sem á að dæma samkvæmt lögum sem um réttarhöldin gilda.

Ég ætla að endurtaka þetta. Þeir sem taka ákvörðun um að ákæra menn fyrir landsdómi kjósa saksóknarann, þeir hafa orðið berir að því að reyna að breyta leikreglum í miðjum leik og þeir kjósa saksóknara. Þeir kjósa dómarana sem dæma. Svo tala menn um réttaröryggi og mannréttindi í umræðu um þetta mál.

Hin pólitísku réttarhöld yfir Geir H. Haarde hafa ekkert með réttaröryggi að gera. Þau hafa ekkert með mannréttindi að gera. Þau eru snöggur og smánarlegur blettur á annars merkilegri sögu Alþingis Íslendinga. Ég leyfi mér að fullyrða að enginn hv. þingmaður og ekki einu sinni hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem nú er genginn í salinn mundi nokkurn tímann láta sér lynda sú málsmeðferð og sú meðferð sem Geir H. Haarde hefur þurft að þola í tengslum við þetta landsdómsmál frá því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra — það var reyndar ekki hann, hann greiddi ekki atkvæði með þeirri ákæru, heldur nokkrir flokksfélagar hans, tóku ákvörðun um það að samþykkja ákæru á hendur honum. Enginn mundi sætta sig við þessa málsmeðferð vegna þess að hún er til fullkominnar skammar.

Ég veit alveg (Gripið fram í.) af hverju (Gripið fram í.) ráðist er í þær breytingar sem hér liggja fyrir samkvæmt því frumvarpi sem hv. þm. Atli Gíslason og félagar hans í saksóknarnefnd leggja til en ekki gengið í það verk að afgreiða frumvarp hæstv. innanríkisráðherra. Ástæðan er einfaldlega sú að menn óttast mannréttindabrotin. Menn átta sig á því að í frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra felast mannréttindabrot. Menn óttast að málið gegn Geir H. Haarde fyrir landsdómi ónýtist vegna þess að ekki hefur verið haldið sómasamlega á málum af hálfu þeirra sem frumkvæði höfðu að því og hafa barist fyrir því. Þeir vilja ekki og geta ekki sætt sig við að sakborningurinn í málinu, Geir H. Haarde, njóti vafans af því hvernig á þessu hefur verið haldið. Það er í samræmi við allt sem snýr að þessu máli. Þetta landsdómsmál og þessi pólitísku réttarhöld eru þeim sem að þeim standa til fullkominnar og ævarandi skammar.