139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[16:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um landsdóm með síðari breytingum. Þetta er önnur breytingin á þeim lögum sem við ræðum eftir að Alþingi ákvað með þingsályktun að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um alla þá málsmeðferð en hún var mjög undarleg og ég kem betur inn á það á eftir.

Í stjórnarskránni er lögð áhersla á þrískiptingu valdsins og að þessir þrír valdapóstar ríkisins, þ.e. löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið, eigi að vera eins óháðir og hægt er. Það eru reyndar á því vissar brotalamir sem ég hef margoft bent á sem eru þær að ráðherra sé jafnframt þingmaður og sitthvað fleira. Það vantar í stjórnarskrá einhvern sem dæmir um það þegar Alþingi vill ákæra ráðherra og eins þegar einhver efast um að lög sem Alþingi hefur samþykkt samræmist stjórnarskrá. Það vantar sem sagt stjórnlagadómstól. Ég tel að við nýskipan stjórnarskrárinnar, sem nú er verið að vinna að, eigi menn að huga að því í fyrsta lagi náttúrlega að geta um Hæstarétt í stjórnarskránni, sem vantar, en sérstaklega að Hæstiréttur komi fram sem stjórnlagadómstóll og það sem við köllum hér landsdóm.

Það hefur komið fram í umræðunni að þetta mál sé mjög skrýtið, þar er sagt, með leyfi forseta, þetta er ekki langur lagatexti:

„Dómarar sem eiga sæti í landsdómi þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun gegn ráðherra og varamenn þeirra skulu ljúka meðferð þess máls þrátt fyrir að kjörtímabil þeirra sé á enda.“

Þarna er sem sagt sagt að sá dómur sem nú starfar að þessu sérstaka máli gegn Geir H. Haarde skuli starfa áfram. Jafnframt segir og ég er búinn að fá svar við því að væntanlega þarf þá að kjósa nýjan landsdóm í næstu viku, skilst mér, því að þá rennur út umboð þess landsdóms sem er í gildi í dag. Ef menn vilja hafa starfandi landsdóm á Íslandi til að taka á málum sem hugsanlega geta komið upp, það eigi að fara að kæra einhvern ráðherra fyrir að hafa t.d. skrifað undir risasamning við erlent ríki um ríkisábyrgð án heimildar í fjárlögum og annað slíkt, þá mundi hinn nýi landsdómur dæma það en ekki sá gamli.

Nú er það þannig að samkvæmt lögum um landsdóm eru sex aðilar kosnir á Alþingi en hinir níu eru skipaðir og eru sjálfkjörnir í landsdóm þannig að það yrði væntanlega ekki skipt um þá nema vegna forfalla. Það mundu því starfa tveir landsdómar hlið við hlið og munurinn yrði þessir sex einstaklingar. Þetta er náttúrlega orðin mjög skrýtin staða, ég verð að viðurkenna það.

Þegar ráðherra er dæmdur eða ákærður með þingsályktun frá Alþingi eins og gert var hér með alls konar hrossakaupum, eins og hefur komið fram í ræðum manna og ég ætla ekki að fara að endurtaka, stendur einstaklingurinn, fyrrverandi ráðherrann, gegn ríkisvaldinu og ekki bara einni grein ríkisvaldsins heldur öllum vegna þess að hann stendur gegn Alþingi, löggjafarvaldinu, sem ákærir hann, hann stendur gegn dómsvaldinu sem er landsdómur og hann stendur gegn ákæruvaldinu sem Alþingi kaus líka. Hann stendur því einn gegn öllu ríkisvaldinu og það kom hér fram að búið er að setja óhemjufjárveitingar í þennan málarekstur allan til þess að klekkja á einum manni.

Nú er spurning hvaða fjárráð hann hefur til að verjast þessu öllu, ég hef ekki séð neins staðar að ætlaður sé einhver kostnaður á fjárlögum til að styðja hann í þeirri baráttu. Það skiptir kannski ekki máli, þetta er kannski sama staðan og menn standa almennt frammi fyrir þegar þeir eru ákærðir að þeir þurfa að standa straum af því sjálfir, en reyndar er stundum um að ræða gjafsókn.

Þeir sem muna eftir þessu máli öllu muna eftir umræðunni þar sem menn ræddu um að þetta væru pólitísk réttarhöld. Ég get á margan hátt tekið undir það. Það voru fjórir ráðherrar sem átti að ákæra, einungis einn var ákærður, og það var dálítið athyglisvert að fylgjast með hvernig atkvæðagreiðslan fór fram og hvernig atkvæðin féllu. Það er mjög athyglisvert að kanna það og það verður örugglega kannað í framtíðinni af stjórnmálafræðingum. Þeir fá nóg verkefni við að rannsaka þetta mál allt saman.

Það sem mér finnst verst í þessu, og veldur mér ákveðnu hugarangri og veldur því að maður fær óbragð í munninn, er að ég man eftir því að þeir menn sem greiddu atkvæði með því að ákæra þennan einstakling stóðu hér í þessum ræðustól — ég veit ekki hvaða orð ég á að nota — mjög reiðir út í viðkomandi ráðherra, en þeir voru þá stjórnarandstæðingar og hann var þá í ríkisstjórn. Þeir stóðu hérna og steyttu hnefann út af gerðum þessa ráðherra og manni líður dálítið illa með það að sama fólk og ber þannig hug til ráðherrans sem var ákærður skuli svo hafa sest í dómarasætið og ekki bara það, ákærusætið líka og ákært þennan mann. Þetta er dálítið vont mál og ljótt.

Ég man alveg eftir því þegar hér stóðu hæstv. núverandi ráðherrar og steyttu hnefann og meira að segja gengu að viðkomandi hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Þetta liggur allt saman fyrir á myndböndum frá Alþingi og þeir sem hafa nennu til og vilja skoða geta skoðað hvaða hug ákærendur báru til þess manns sem á endanum var ákærður.