139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands. Mér þykir miður að gerð hafi verið athugasemd við og ekki fallist á að frumvarp sem er skylt þessu frumvarpi og tengt því, um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands, verði tekið samhliða til umræðu þar sem frumvörpin eru efnislega skyld.

Frumvarp til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands er hluti af afrakstri ítarlegrar rannsóknar af hálfu stjórnvalda í kjölfar þeirrar hörðu gagnrýni sem stjórnvöld efnahagsmála máttu sæta í kjölfar efnahagshrunsins. Þessi harða gagnrýni kom skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem og í skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Því fer þó fjarri að öllum umbótum sem nauðsynlegt er að gera í stjórnsýslu landsins verði hrint í framkvæmd með lagabreytingum og fjölmargar breytingar hafa verið innleiddar eða eru í undirbúningi, svo sem reglur um starfshætti ríkisstjórna og ráðherranefnda.

Setning siðareglna fyrir ráðherra, embættismenn og ríkisstarfsmenn almennt og innleiðing þeirra með fræðslu og umræðu mun jafnframt gegna mikilvægu hlutverki í því sambandi. Hrunið og atburðarásin í aðdraganda þess reyndi mjög á getu stjórnsýslunnar til viðbragða, samhæfingar, eftirlits, stefnumótunar og skynsamlegrar ákvarðanatöku. Við slíkar aðstæður er viðbúið að veikustu hlekkirnir í keðjunni gefi sig.

Af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis má ráða að helsti veikleiki íslenskrar stjórnsýslu hafi verið skortur á samhæfingu þeirra stjórnvalda sem störfuðu að skyldum verkefnum á sviði efnahagsmála. Smæð hins íslenska stjórnkerfis og það hversu mjög brýnustu verkefnin hvíldu á herðum fárra einstaklinga virðist einnig hafa verið alvarlegur veikleiki.

Mikilvægt er að æðsta stjórnsýsla ríkisins, Stjórnarráð Íslands, dragi lærdóm af því sem úrskeiðis fór í aðdraganda hrunsins og vinni markvisst að því að styrkja sig á þeim sviðum þar sem hún er veikust fyrir. Ný lög um Stjórnarráð Íslands og frumvarp það sem ég mæli hér fyrir eru mikilvægur þáttur í því.

Virðulegi forseti. Það var meðal fyrstu verka þessarar ríkisstjórnar að hefja vinnu við að endurskoða lagagrundvöll Stjórnarráðsins. Þannig var strax í desember 2009 skipuð nefnd sérfræðinga sem falið var að koma með tillögur um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands. Sú vinna var í gangi allt árið 2010 og öðlaðist nýjan grundvöll og nýtt upphaf við útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég ákvað jafnframt í aðdraganda útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að skipa sérstakan starfshóp sem falið var að taka skýrsluna til ítarlegrar athugunar og leggja mat á þau atriði sem sérstaklega beindust að stjórnsýslunni og starfsháttum Stjórnarráðsins. Var starfshópnum jafnframt falið að gera tillögur til forsætisráðherra og ríkisstjórnar um hugsanleg viðbrögð við þeim.

Skýrsla starfshópsins kom út í maí árið 2010 og nýttist vel í vinnu nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands. Þá kom skýrsla þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, út í desember 2010 og byggði endurskoðunarnefndin jafnframt á þeim tillögum sem þar komu fram. Endanleg skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands kom síðan út í desember sl. og ber hún heitið Samhent stjórnsýsla og er hún aðgengileg þingmönnum sem fylgiskjal með frumvarpinu. Sú skýrsla og þær tillögur sem þar eru settar fram marka m.a. grundvöll og meginefni þess lagafrumvarps sem ég mæli hér fyrir. Skýrslan og frumvarpið byggja þannig á ítarlegri skoðun og athugun á því hvernig mæta megi ábendingum og tillögum sem fram koma í framangreindum skýrslum, þ.e. skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu þingmannanefndarinnar og skýrslu starfshóps forsætisráðherra.

Í athugasemdum með frumvarpinu, og vísa ég þar til XI., XII. og XIII. kafla, er rakið lið fyrir lið hvernig brugðist hefur verið við einstökum tillögum sem settar eru fram í þessum skýrslum og bendi ég þingmönnum sérstaklega á að kynna sér það sem þar segir.

Við undirbúning málsins var haft ítarlegt samráð og m.a. fundað með fjölda embættis- og starfsmanna innan Stjórnarráðsins, ýmsum fræðimönnum og sérfræðingum á sviði stjórnsýslu og stjórnsýsluréttar auk formanna stéttarfélaga starfsmanna Stjórnarráðsins. Þá var í febrúar og mars árið 2010 gerð sérstök athugun og rannsókn á afstöðu ríflega 30 stjórnenda í Stjórnarráði Íslands, þar á meðal allra ráðuneytisstjóra, en einnig voru tekin viðtöl við núverandi og fyrrverandi ráðherra. Margar af tillögum nefndarinnar byggja á þeirri rannsókn. Þá voru stjórnarráð og stjórnsýslukerfi annarra landa skoðuð og opið málþing haldið í október 2010 um fyrirhugaða endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands.

Þeir sem komið hafa að vinnslu þessa máls og þeirri vinnu sem ég hef getið hér að framan eru sammála um að í gegnum tíðina hafi verið fjallað lítið um vinnubrögð og starfshætti Stjórnarráðsins og í raun merkilega lítið. Því hefur sú vinna sem þegar hefur verið innt af hendi og sú mikla umræða sem hún hefur vakið innan stjórnsýslunnar þegar reynst þýðingarmikil. Efnisákvæði frumvarpsins ráðast því í veigamestum atriðum, rétt eins og í ákvæði núgildandi laga um Stjórnarráð Íslands, af ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands enda grundvallast staða Stjórnarráðsins, þ.e. ráðherra og ráðuneyta þeirra, sem æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins í landinu á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Við vinnslu frumvarpsins var þess gætt í hvívetna að ákvæði þess væru í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og óskráðar stjórnskipunarreglur.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að sú löggjafarframkvæmd að telja ráðuneyti upp í lögum um Stjórnarráð Íslands verði aflögð. Þess í stað er lagt til að einungis verði kveðið á um hámarksfjölda ráðuneyta í Stjórnarráðinu en ákvörðunarvald um það hvaða ráðuneyti skuli starfrækt innan þeirra marka hvíli hjá stjórnvöldum á hverjum tíma. Efnisbreytingar að þessu leyti eru þó í reynd ekki miklar frá gildandi lögum, enda er í 2. mgr. 4. gr. núgildandi laga kveðið á um að heimilt sé að sameina þau ráðuneyti sem talin eru upp í lögunum með forsetaúrskurði samkvæmt tillögu forsætisráðherra.

Í athugasemdum við þetta ákvæði laganna, sem urðu að lögum í júní 2007, segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þá er með frumvarpi þessu lagt til að heimilað verði að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta.“

Að óbreyttum lögum yrði ekki hægt að hrinda slíkri breyttri skipan í framkvæmd því að heiti ráðuneyta og fjöldi er bundinn í lög. Er því lögð til sú einfalda breyting að með forsetaúrskurði megi ákveða sameiningu tveggja eða fleiri ráðuneyta í eitt. Þessi breyting, verði hún að lögum, veitir því eingöngu svigrúm til fækkunar ráðuneyta frá því sem nú er og er hún í fullu samræmi við anda núgildandi laga um að ekki megi fjölga ráðuneytum án beinnar lagaheimildar.

Þessi breyting var gerð í tíð fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, sem heimilar með forsetaúrskurði nú þegar að sameina ráðuneyti þannig að það væri hægt að sameina án þess að málið kæmi fyrir þingið iðnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið, sem margir telja að þetta frumvarp beinist sérstaklega að sem er auðvitað alrangt. Það er allt annað og efnismeira atriði sem er í þessu frumvarpi en það atriði. Finnst mér mikilvægt að halda því til haga og koma því til skila hér í þessari umræðu. Þetta taldi hæstv. þáverandi forsætisráðherra nauðsynlegt að Alþingi samþykkti þannig að framkvæmdarvaldið gæti þá á hverjum tíma sameinað ráðuneyti (Forseti hringir.) eftir því sem ástæður þættu til.

(Forseti (RR): Forseti biður hæstv. forsætisráðherra að gera hlé á ræðu sinni augnablik.)