139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í almenna umræðu um efni frumvarpsins, kosti þess og galla, við forsætisráðherra í þessum andsvörum, það verður að bíða þar til síðar í umræðunni. Ég ætla að láta mér nægja að koma með þrjár aðskildar spurningar, hverja úr sinn áttinni, til hæstv. forsætisráðherra.

Í fyrsta lagi veitti ég því athygli að ekki er gert ráð fyrir að fundargerðir ríkisstjórnarfunda séu opinberar, en ég gat ekki skilið skýrslu þingmannanefndar frá síðasta ári öðruvísi en svo að þar væri gert ráð fyrir slíku. Hvað veldur?

Í öðru lagi vildi ég spyrja um ráðgjafa ráðherra. Það er tiltekið að ekki sé heimilt að ráða ráðgjafa það sem eftir er af þessu kjörtímabili. Þá spyr ég: Eru engir slíkir ráðgjafar að störfum í dag? (Forseti hringir.)

Í þriðja og síðasta lagi spyr ég: Telur hæstv. forsætisráðherra að það sé meiri hluti á Alþingi fyrir þessu frumvarpi?