139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af máli hæstv. forsætisráðherra mátti skilja að hér væri verið að leggja fram hrunfrumvarp, svo mikið talaði hún um að taka þyrfti til í Stjórnarráðinu eftir hrunið, en man augljóslega ekki eftir því að hún sat sjálf sem ráðherra þegar hrunið varð.

Í frumvarpinu er verið að færa allt vald undir forsætisráðuneytið. Orðið forsætisráðherra kemur 14 sinnum fyrir í 27 lagagreinum frumvarpsins og á móti er verið að gera aðra ráðherra allslausa, því að í frumvarpinu er bara talað um ráðherra og það ekkert skilgreint meir.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra um það sem stendur í 9. gr. með þessar ráðherranefndir sem er verið að lögfesta í frumvarpinu, raunverulega verið að framselja vald og ákvarðanir í einhverjar nefndir: Er það góð leið til árangurs, hæstv. forsætisráðherra, (Forseti hringir.) að ef vandi steðjar að ríkisstjórninni skuli það vera orðið lögfest að það skuli fara inn í ráðherranefnd?