139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og flestir vita hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lýst andstöðu við stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Eins og ég fór inn í framsögu minni áðan er tilefni þessa frumvarps ekki það að stofna eigi atvinnuvegaráðuneyti á grundvelli þess. Ég vísaði meira að segja til þess að til væri forsetaúrskurður ef vilji stæði til að sameina þessi ráðuneyti án þess að það kæmi fyrir þingið. Það var ekki tilgangurinn með því að leggja fram þetta frumvarp að hægt væri að stofna atvinnuvegaráðuneyti.

Frumvarpið er komið til þingsins. Það er í meðförum þingsins. Það er þingsins sjálfs að ákveða hvenær málið kemur aftur til þings til 2. umr. og hvenær það verður tekið til atkvæðagreiðslu. En vonir mínar standa til þess að þetta mál verði afgreitt og verði gert að lögum á þessu þingi.