139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki kynnt sér innihald þeirrar bókunar sem gera átti á sameiginlegum fundi þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins þar sem kemur sérstaklega og skýrt fram á bls. 3 fögnuður yfir því að ráðuneyti skuli sameinuð og halda eigi því áfram.

Ég veit ekki hvort ég skildi hæstv. forsætisráðherra rétt hér áðan. Mig langar því að spyrja hana: Er hæstv. forsætisráðherra hætt við að sameina atvinnuvegaráðuneytin? Miðað við orð hennar hér áðan er útlit fyrir að svo sé. Það er þá ágætt að fá það staðfest.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég undrast að framkvæmdarvaldið skuli koma hér inn í þingið með frumvarp sem þetta þar sem beint er vegið að löggjafarvaldinu eins og gert er með því ólukkans frumvarpi sem hér er. Það er ekki lengur Alþingi sem skipar í ráðuneytin, (Forseti hringir.) heldur á að fela forsætisráðherra það alræðisvald.