139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:55]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst eins og margir þingmenn sem komið hafa hingað upp misskilji þetta frumvarp eitthvað. Það er ekki megintilgangur þess að sameina ráðuneyti. Það sem liggur miklu frekar hér að baki er að ná fram betri samhæfingu og samræmingu innan Stjórnarráðsins og stjórnsýslunnar en verið hefur. Það er ekki hætt við það að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en ég hef sagt að tilgangurinn með því frumvarpi sem hér er verið að ræða sé ekki sá að búa til atvinnuvegaráðuneyti, tilgangurinn er allt annar og miklu meiri. (Forseti hringir.) Það hefur ekki verið tilgangurinn með frumvarpinu, heldur fyrst og fremst það að koma betri skipan á stjórnsýsluna og Stjórnarráðið en verið hefur.