139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja þessa ræðu á að lýsa því að ég man ekki atburðarásina með sama hætti og hæstv. forsætisráðherra varðandi það ákvæði sem hún nefnir um heimildina til að sameina ráðuneyti. Ég hygg að það hafi verið í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, eftir að hæstv. forsætisráðherra var sestur í ríkisstjórn sem félagsmálaráðherra, sem það ákvæði kom inn. Það getur verið að mér skjöplist, ég hef ekki gögnin til að skoða það. Ég sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins víkst ekki undan þeirri ábyrgð en mér finnst alveg ástæðulaust að nudda framsóknarmönnum upp úr því ef það er ekki svo. Ég tek fram að þetta kann að vera misminni en ég þykist vita að þetta mál hafi komið inn í þingið á haustþingi 2007. En þar getur mér skjöplast eins og gerist í umræðum af þessu tagi.

Ég ætla fyrst að segja um þetta frumvarp að í því er sitthvað nýtilegt. Ég held að í þeim fjölmörgu greinum sem þar er að finna sé í mörgum atriðum ákvæði sem eru til bóta, ýmsar reglur settar fram með skýrari hætti, stundum nýjar reglur, stundum verið að færa í orð áður óskráðar reglur og allt gott um það að segja. Það eru fjölmörg atriði í frumvarpinu og víða komið við þó að eitt tiltekið atriði hafi raunar aðallega verið á döfinni í opinberri umræðu en nauðsynlegt er að fara yfir fjöldamörg önnur atriði. Sum þeirra eru eins og ég segi til bóta en önnur kunna hugsanlega að orka tvímælis. Við getum farið yfir það meðan málið er í meðförum þingsins og þurfum auðvitað að taka það sem nýtilegt er en sleppa því sem ekki er til bóta.

Það sem ég vildi helst gera að umræðuefni er það sem hefur mest borið á í umræðunni og það er hin víðtæka heimild til að sameina ráðuneyti, sem felst í þessu frumvarpi. Nákvæmlega þar held ég að átakapunkturinn í sambandi við þetta mál muni liggja.

Það er vissulega svo í núgildandi lögum um Stjórnarráð, eins og þeim var breytt í tíð fyrri ríkisstjórnar, að kveðið er á um að heimilt sé með forsetaúrskurði að sameina ráðuneyti. Engu að síður eru nöfn og verksvið ráðuneyta tilgreind í lögum um Stjórnarráð og með því frumvarpi sem hér liggur fyrir er verið að hverfa frá því fyrirkomulagi. Um raunverulega breytingu er að ræða og vísa ég í því sambandi til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins þar sem m.a. segir, með leyfi forseta:

„1. mgr. ákvæðisins felur í sér eina veigamestu breytinguna samkvæmt lögunum. Er lagt til að horfið verði frá þeirri löggjafarstefnu sem við lýði hefur verið allt frá setningu laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, að ráðuneyti séu talin upp með tæmandi hætti í lögunum. Þess í stað er lagt til að ákvörðunarvald um það hvaða ráðuneyti skuli starfrækt verði í höndum stjórnvalda á hverjum tíma.“

Stjórnvöld eru væntanlega í þessum skilningi efnislega sá meiri hluti sem stendur á bak við ríkisstjórn á hverjum tíma, eða ríkisstjórn, en formlega a.m.k. forsætisráðherra því að það er forsætisráðherra sem getur borið fram tillögu við forseta um hvernig skipað er í ráðuneyti. Þarna er raunverulega um breytingu að ræða sem felur í sér að það vald að ákveða heiti ráðuneyta og hvaða ráðuneyti skuli starfrækt í landinu sé alfarið tekið frá þinginu og fært til forsætisráðherra.

Þetta er umdeilanlegt mál frá ýmsum hliðum. Nú er það rétt, eins og komið hefur fram í umræðunni og hæstv. forsætisráðherra hefur m.a. vísað til, að ákveðið skref var stigið í þessa átt árið 2007. Ég sat sem formaður allsherjarnefndar á þeim tíma, ef ég man rétt, og við ræddum þetta töluvert og við fórum yfir það. Það var a.m.k. afstaða okkar þá að ganga ekki lengra en gert var með því frumvarpi og ég játa að ég velti því mjög fyrir mér hvort við gengjum hreinlega of langt með þeirri breytingu. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að ég tel, og ætla ekki að útskýra hvernig sú skoðun mótast hjá mér eða hefur myndast, og hef herst í þeirri meiningu að það sé rétt að sem mest vald í þessum efnum liggi hjá þinginu en sem minnst hjá ríkisstjórninni — að valdið eigi fremur að liggja hjá löggjafarvaldinu, Alþingi, en hjá ríkisstjórninni, framkvæmdarvaldinu. Þessi breyting gengur í öfuga átt við það sjónarmið. Þess vegna hlýt ég að gera verulegan fyrirvara við þetta ákvæði þar sem verið er að ganga lengra í því að auka svigrúm eða völd forsætisráðherra í þessum efnum en nokkru sinni fyrr. Að því leyti felur frumvarpið í sér valdatilflutning frá þingi til ríkisstjórnar. Það er umhugsunarefni og það er umhugsunarvert hvernig hæstv. forsætisráðherra telur það samræmast umræðum, sem farið hafa fram í þjóðfélaginu — ja, nú eru að verða nærfellt þrjú ár, frá hruni a.m.k. — eftir útgáfu rannsóknarskýrslunnar frægu og þingmannaskýrslunnar frægu, að færa vald í auknum mæli frá þingi til ríkisstjórnar eða öllu heldur til forustu ríkisstjórnar. Það er verið að færa valdið frá mörgum til fárra. Þessi breyting gengur nákvæmlega út á það, hún gengur ekki út á neitt annað. Það er vissulega rétt að hún eykur ákveðinn sveigjanleika fyrir forustu ríkisstjórnar á hverjum tíma en um leið dregur hún úr formfestu. Annað atriði sem er gegnumgangandi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í skýrslu þingmannanefndar er gagnrýni á skort á formfestu í stjórnsýslunni. Þá eru viðbrögð hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar að minnka formfestu og aftur er farið í öfuga átt við það sem maður hélt að í stefndi.

Þriðja atriði af sama toga er að verið er að færa meira vald til forustu ríkisstjórnar og þá væntanlega eins og við þekkjum til forustumanna ríkisstjórnarflokka um að ákveða hvernig eigi að skipa ráðuneytum. Það þarf ekki að tala við þingið, það þarf ekki að tryggja neinn meiri hluta þar eða ganga neitt frá því. Það er bara ákvörðun forustumanna ríkisstjórnarinnar hvernig það er gert. Þetta, hæstv. forseti, tel ég að sé til þess fallið að auka það sem hefur verið kallað foringjaræði í íslenskum stjórnmálum. Þetta er ekki til að minnka foringjaræði. Kannast hv. þingmenn við þá umræðu? Muna þeir eftir umræðunni í sambandi við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar frá því í fyrra um foringjaræði í stjórnmálum? Það voru margir kaflar um það. Til sumra er meira að segja vitnað í athugasemdum. En með því að færa völd frá Alþingi til ríkisstjórnar og í raun forsætisráðherra og færa um leið ákvörðunarvald í þessum efnum frá einstökum ráðherrum til forsætisráðherra, eins og er gert ráð fyrir á öðrum stað í frumvarpinu, er líka verið að auka foringjaræði. Þetta atriði frumvarpsins finnst mér ekki standast skoðun miðað við það sem hver einasti maður í þinginu eða svo til hefur bæði sagt og skrifað á undanförnum tveimur árum. Það er verið að auka vald framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafarvaldsins, það er verið að færa völd frá einstökum ráðherrum til forsætisráðherra, það er verið að minnka formfestu, ekki að auka hana, og það er verið að auka vægi og áhrif foringja ríkisstjórnarflokka á kostnað annarra. Það þarf að skoða þetta ef einhver meining var á bak við ummælin sem féllu í fyrra, sérstaklega í umræðum um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar. Það þarf að skoða upp á nýtt þessi atriði frumvarpsins þó að ekki væri nema út af þessu.

Hæstv. forseti. Þetta er í mínum huga það alvarlegasta við frumvarpið. Þetta tel ég að þurfi að endurskoða. Ýmis önnur atriði má vel nýta, halda sumu og sleppa öðru eins og gengur. Ég næ ekki í þessari umræðu að fara í gegnum það en ég hef merkt við allmörg efnisatriði í frumvarpinu sem ég tel að þurfi ýmist að skoða betur, breyta, fella út eða gera öðruvísi með einhverjum hætti. Við eigum eftir að taka þá umræðu á vettvangi nefndar og síðan í þingsölum í 2. og 3. umr. En þeir stóru annmarkar sem eru á þessu frumvarpi liggja fyrst og fremst í 2. gr. frumvarpsins sem víkur að því að taka frá þinginu valdið til að taka ákvarðanir í sambandi við ráðuneytin og færa það til forustu ríkisstjórnarinnar. Það er stærsti gallinn, hæstv. forseti, og þörf á að endurskoða þann þátt verulega.

Ég vildi nefna að hæstv. forsætisráðherra sagði í andsvörum nokkrum sinnum áðan að henni eða ríkisstjórninni væri í lófa lagið að sameina ráðuneyti, t.d. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og hvort það var þriðja ráðuneytið eða bara þessi tvö, með forsetaúrskurði. (Gripið fram í: Það væri heimilt.) Það væri heimilt. En þá spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er einhver sérstök ástæða fyrir því að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki beitt sér fyrir því enn þá? Er einhver sérstök ástæða fyrir því að sett var í lagafrumvarp á síðasta þingi sem m.a. fól í sér sameiningu samgönguráðuneytis og dómsmálaráðuneytis annars vegar og heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis hins vegar? Það var ekki gert með forsetaúrskurði. Það var gert með lagafrumvarpi, ég vek athygli á því, þrátt fyrir breytinguna 2007. Í því frumvarpi voru líka breytingar sem vörðuðu atvinnuvegaráðuneytin sem voru svo felldar út vegna þess að það var ekki meiri hluti fyrir þeim í þinginu. Forsætisráðherra hefur margoft sagt að þetta sé stefna ríkisstjórnarinnar og að þessu sé unnið, það sé ætlunin, í þetta eigi að fara og því spyr ég: Ef forsætisráðherra ætlar sér að gera þetta, ef ríkisstjórnin er sammála um það, ef ríkisstjórninni er þetta heimilt, af hverju hefur það þá ekki verið gert?