139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir ræðu hans. Ég tek undir þau varnaðarorð og efasemdaraddir sem komu fram í ræðu hans um það sem kemur fram í þessu frumvarpi að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið.

Það er eins og núverandi forsætisráðherra líti svo á að hún ætli að sitja þar næstu 110 árin. Guð forði okkur frá því. (Gripið fram í: 120.) Sami hæstv. forsætisráðherra leggur til 110 ára leynd á skjöl sem koma úr ráðuneytinu. Svo er þetta lagt til hér, miklir einræðistaktar í þessu frumvarpi, því að ekki er nóg með að hér sé verið að færa vald ráðuneytanna undir forsætisráðuneytið heldur er verið að tína ýmsa valdastofna til sem færa á undir það ráðuneyti, samanber það að hér var lagt til að starfa ætti í þinginu lagaskrifstofa Alþingis og þá fór hæstv. forsætisráðherra fram með það að stofna lagaskrifstofu í forsætisráðuneytinu, hennar eigin ráðuneyti.

Mig langar að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson út í ráðherranefndir sem verið er að lögfesta hér, verði frumvarpið að lögum: Miðað við æðstu stjórn ríkisins og hvernig litið er á stjórnskipan Íslands, finnst þingmanninum eðlilegt að forsætisráðherra geti framselt vald sitt til þessara svokölluðu ráðherranefnda eins og hér er til? Er þetta ekki frekar dæmi um það að hér sé verið að búa til hliðarleið til að geta slegið málum á frest eða eins og það heitir í daglegu máli að koma þeim til nefndar, frysta málin í nefnd, salta þau og taka ekki á nokkrum einasta hlut? (Forseti hringir.) Mig langar til að koma svo með aðra spurningu í seinni umferð en þetta er fyrri spurningin.