139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek það fram að þetta varðandi ráðherranefndirnar hefur ekki valdið mér neinum sérstökum áhyggjum. Ég held að það geti vel átt við að hafa ráðherranefndir um einstök málefni. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar og held að það sé í samræmi við afstöðu hv. þingmanns að slíkar ráðherranefndir geti ekki leyst einstaka ráðherra undan ábyrgð á málefnasviðum sínum. Þrátt fyrir að ráðherranefnd starfi og fjalli um eitthvert tiltekið mál held ég að það verði alltaf viðkomandi ráðherra sem ber ábyrgð á tilteknu málefnasviði, sem stjórnskipulega ber ábyrgð á málaflokknum og þeim niðurstöðum sem koma út úr ráðherranefnd.

Þá vaknar spurningin: Er þörf á að hafa ákvæði um ráðherranefndir í lögum af þessu tagi? Kannski, kannski ekki, ég hef ekki sterkar meiningar um það. Ég held að það sé ekki skaðlegt, ekkert endilega nauðsynlegt. Ég legg hins vegar áherslu á að á sama hátt og það getur átt við að ráðherrar sem vinna að málum þar sem málefnasvið þeirra snertast starfi saman innan einhverra tiltekinna nefnda þá beri ráðherrar, þrátt fyrir slíkar nefndir, fulla ábyrgð á þeim ákvörðunum og embættisverkum sem teknar eru á viðkomandi málefnasviðum en ekki nefndirnar.