139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að deila þessari skoðun með okkur hér. Mig langar í seinna andsvari að beina spurningu til hv. þm. Birgis Ármannssonar. Eins og kom fram í ræðu hans er þetta ekki ríkisstjórnarmál vegna þess að við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að a.m.k. einn ráðherra styður frumvarpið alls ekki og annar ráðherra í ríkisstjórninni hefur lýst miklum efasemdum um það. Ég veit að hv. þingmaður getur ekki skotist inn í hugarfylgsni hæstv. forsætisráðherra en þingmaðurinn kom inn á það í ræðu sinni og varpaði þeirri spurningu fram hvers vegna ekki væri búið að sameina ráðuneytin úr því að hægt er að gera það með forsetaúrskurði, samanber það sem kom inn í lög um Stjórnarráðið frá 2007. Er ástæðan jafnvel sú að hæstv. forsætisráðherra treystir sér ekki til að sameina (Forseti hringir.) ráðuneytin með þessum svokallaða forsetaúrskurði og freistar þess hér í þinginu að fá stjórnarandstöðuna (Forseti hringir.) til liðs við sig svo hún geti uppfyllt þá ESB-skyldu sem af þessu frumvarpi hlýst?