139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:21]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og efnisríka þar sem hann fór vel yfir þetta mál og það sem þyrfti að varast í því og eins þá þætti sem hann teldi að væru jákvæðir við málið.

Mig langar að beina tveimur atriðum til hv. þingmanns. Annars vegar sem snýr að svonefndu foringjaræði eða oddvitaræði og, með leyfi forseta, vitna ég þar í skýrslu þingmannanefndar um rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem segir:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt. Ljóst er að ráðherraábyrgðarkeðjan slitnaði eða aflagaðist í aðdraganda hrunsins og ráðherrar gengu á verksvið hver annars, t.d. þegar fagráðherrar voru ekki boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir þeirra ábyrgðarsvið. Ábyrgð og eftirliti fagráðherra með sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneyti þeirra heyrðu virtist verulega ábótavant.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki í ljósi þess sem kemur fram í frumvarpinu að ríkisstjórnin sé á verulega rangri leið hvað það snertir að vinna út frá þeim hugmyndum sem voru viðraðar í þingmannanefndinni? Telur hann ekki jafnframt sem allsherjarnefndarmaður að það sé nokkuð ólíklegt að stjórnarandstaðan, eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra, muni veita þessu máli brautargengi? Telur hann ekki ólíklegt í ljósi þess á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í þessu máli að þetta verði stutt af stjórnarandstöðunni og það sé mjög erfitt að reiða sig á hana í því?

Ég ætla að koma með aðrar spurningar á eftir en tíminn dugar ekki núna.