139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður kom inn á síðast í ræðu sinni er kannski stærsti punkturinn. Vitanlega er ýmislegt ágætt í þessu frumvarpi þar sem fjallað er um siðareglur og ákveðna hluti sem þarf að skýra og þess háttar. En sá hluti að fela forsætisráðherra alræðisvald yfir því hvernig ráðuneytum er í raun skipað hlýtur að teljast mjög sérstakur.

Nú þekki ég ekki þá sögu vel hvernig staðið hefur verið að svona breytingum á Stjórnarráðinu í þinginu. Eitt er þó ljóst að eftir skýrsluna stóru og tillögur þingmannanefndarinnar hefur verið rætt um að betra samráð eigi að vera í þinginu og í raun skorað á þingmenn að gera slíkt. Var haft samráð við þingmenn Sjálfstæðisflokksins um gerð þessa frumvarps sem liggur fyrir þinginu?