139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú kannaðist ég við tóninn, röddina og svipinn á hæstv. forsætisráðherra. Þar snerti ég taugarnar og nú talaði hún loksins af eldmóði í ræðustól en ekki eins og talgervill sem les upp þau frumvörp sem lögð eru fram.

Ég hef kynnt mér þetta mál býsna vel, hæstv. forsætisráðherra, og það væri óskandi að fleiri, sérstaklega í ráðherraliðinu, mundu kynna sér mál mjög vel. Jú, ég veit að hæstv. forsætisráðherra kynnti sér frumvarp mitt um stofnun lagaskrifstofu Alþingis mjög vel því að það var ekki búið að vera lengi í þinginu þegar kom hraðpóstur til allsherjarnefndar þar sem nefndinni var tilkynnt að búið væri að stofna lagaskrifstofu Stjórnarráðsins í forsætisráðuneytinu — í forsætisráðuneytinu. Ég veit þess vegna að hæstv. forsætisráðherra las það frumvarp mjög vel.

Varðandi það hvort jafnréttismálin séu í forsætisráðuneytinu eða ekki, hvernig í ósköpunum á maður svo sem að finna út úr því hvar hvað er? Síðan þessi ríkisstjórn tók við hefur verið hrært svo mikið í stjórnsýslunni að maður tapar áttum inn á milli um hvar hver málaflokkur er. Það er einkenni þessa frumvarps, eins og ég benti á í upphafi ræðu minnar, að hæstv. ríkisstjórn er búin að hræra svo mikið í embættistitlum og ráðuneytisheitum að til hliðar liggur frumvarp upp á 545 greinar þar sem þetta er einfaldað fyrir ríkisstjórnina og búið að taka út öll heiti á ráðherrum og ráðuneytum. Eftir stendur að eini ráðherrann sem hefur hlutverk í því frumvarpi sem er til umfjöllunar er forsætisráðherra og endalaust (Forseti hringir.) vald er fært til forsætisráðuneytisins í frumvarpinu. (Forsrh.: Eins og er í stjórnarskránni, hv. þingmaður. Þar er bara nefndur forsætisráðherra.)