139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en mér finnst það dálítið mótsagnakennt. Nú segir hv. þingmaður að hún styðji meginefni frumvarpsins. Hún gerir síðan alvarlegar athugasemdir við mjög þýðingarmikla þætti frumvarpsins sem mér finnst vera hluti af meginefni frumvarpsins. Hún segir jafnframt að þingflokkur VG hafi afgreitt málið með fyrirvara. Hvað þýðir það í raun? Þýðir það að þingflokkur VG hafi ekki heitið stuðningi þingflokksins við þetta mál þegar það kemur til lokaafgreiðslu? Málið er komið fram eins og það stendur núna. Þingflokkur VG er ekki nema lítill hluti af þinginu. Ef þingflokkur VG stendur síðan frammi fyrir því að það á að afgreiða út úr þinginu lítt breytt frumvarp, hver er þá afstaða VG í málinu? Mér finnst það stöðugt að verða þokukenndara þegar maður skoðar það í því ljósi hver hinn raunverulegi stuðningur er við málið.

Þetta er stjórnarfrumvarp í skötulíki, það vita allir. Það nýtur ekki stuðnings nema hluta af ríkisstjórnarliðinu. Nú liggur sem sagt fyrir að það hefur verið afgreitt út úr þingflokki VG með fyrirvara og algerlega óljóst með hvaða hætti staðið verði að þessum stuðningi.

Hv. þingmaður sagði áðan að hún styddi hins vegar eindregið það sem kemur fram í 2. gr. um að heiti ráðuneytanna skuli ekki talin upp með tæmandi hætti. Mig minnir að þegar þessi mál voru rædd á sínum tíma, árið 2007, hafi þingflokkur VG haft aðra skoðun, a.m.k. einstakir þingmenn hans sem tóku þátt í þeirri umræðu sem þá fór fram af öðru tilefni. Það væri fróðlegt fyrir mig og okkur að heyra hvort þessi umræða hafi sérstaklega verið tekin upp þar sem menn tóku þá upp nýja afstöðu til þessa máls. Það getur vel verið og það er ekkert óeðlilegt við það að menn skipti um skoðun, en það er þó rétt og heiðarlegt að segja frá því með hvaða hætti þeirri skoðun var breytt af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem gagnrýndi (Forseti hringir.) mjög harkalega á sínum tíma breytingar sem voru gerðar á ráðuneytaskipan í ríkisstjórn Geirs H. Haardes á sínum tíma, árið 2007.