139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Til að svara hv. þingmanni vil ég segja það að ég kann reyndar ekki alveg tilurð þessa, ég veit ekki hvaðan þetta plagg er ættað en það er alveg ljóst að það hefur komið fram að búið er að samþykkja þetta í Brussel, þ.e. af sameiginlegu þingmannanefndinni, fulltrúum hennar, og ljóst að þegar íslenska nefndin komst ofan í efni þess af alvöru voru gerðir miklir fyrirvarar við það.

Í 14. lið á bls. 3 stendur, með leyfi forseta, og ég ætla að reyna að þýða þetta jafnóðum:

„… fagnar þeim stjórnsýslubreytingum sem orðið hafa, sérstaklega sameiningu ráðuneyta á Íslandi og þeirri skilvirkni sem af því mun hljótast“ o.s.frv.

Þetta stendur á bls. 3 í þeirri sameiginlegu ályktun sem átti að gera.

Af hverju er verið að draga þetta fram? Það er vitanlega vegna þess að þetta er hluti af þessari umsókn og því umsóknarferli sem við Íslendingar erum því miður í.

Á öðrum stað í þessari ályktun er talað um Sóknaráætlun 20/20 og ef ég tók rétt eftir — ég var reyndar eitthvað annars hugar þegar hv. þingmaður spurði um það — þá nefndi hann það einnig og það er rétt að það eru augljós tengsl þar á milli.