139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um aðlögun Íslands að Evrópusambandinu, svo maður kalli bara hlutina sínum réttu nöfnum. Af hverju tengist þetta Evrópusambandinu? Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór ágætlega yfir það. Ég sat þennan fund sem hann vitnaði í og það er ótrúlegt að verða vitni að því hér í salnum að hæstv. forsætisráðherra geri athugasemdir við það að hv. þingmenn lesi beint úr gögnum sem voru kynnt fyrir hv. þingmönnum á sameiginlegum fundum þingmannanefndar EFTA og Evrópuþingsins. Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvaða firring þetta er.

Þetta frumvarp er lagt fram (Gripið fram í.) fyrst og fremst til að ná tveim markmiðum, annars vegar því að losna við hæstv. ráðherra Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni, ekki vegna þess að áherslur hæstv. ráðherra samrýmist ekki stjórnarsáttmálanum þegar kemur að málaflokkum hans, nei, heldur vegna þess að hann virðist vera frekar tregur í taumi þegar kemur að því að laga Ísland að Evrópusambandinu.

Virðulegi forseti. Við hæstv. ráðherra Jón Bjarnason erum ekki sammála um margt en við erum þó sammála um þetta. Það að setja breytingar á stjórnkerfinu í þennan búning og færa völd til hæstv. forsætisráðherra til að ná fram því markmiði hefði verið kallað einhverjum stórum nöfnum hér á einhverjum tímapunkti svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ef hér hefði verið annar hæstv. forsætisráðherra, og þori ég ekki að nefna nein nöfn því að þá fer svo mikið um hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem eru með viðkomandi einstaklinga fullkomlega á heilanum, þegar svona frumvarp um að færa völd til hæstv. forsætisráðherra hefði komið fram er ég ansi hræddur um að ýmsir þeir aðilar sem hátt hafa í þjóðmálaumræðunni hefðu algjörlega farið á annan endann. Núna er þetta sett í einhvern faglegan búning en ég held að það sýni okkur að ef það hefur einhvern tímann skipt máli að hafa festu í Stjórnarráðinu til að ekki sé hægt að breyta hlutum sisona án nokkurrar fyrirhafnar er það við þessar aðstæður.

Eru menn búnir að fara yfir þann tíma sem þessi ríkisstjórn hefur ekki getað tekið á neinum þeim hlutum sem hæstv. ríkisstjórn þyrfti að taka á? Það er ekki búið að taka á atvinnumálunum, það er ekki búið að taka á skuldamálum heimilanna, það er ekki búið að vinna þá vinnu sem þarf til að koma okkur úr þeirri aðstöðu sem við erum í. Samt er ríkisstjórnin búin að hræra í stjórnkerfinu út í það óendanlega. Ég veit ekki hvort fólk er búið að gleyma því en það var gengið í að breyta nöfnum á ráðuneytum, m.a. úr dóms- og kirkjumálaráðuneyti yfir í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Það var alveg nauðsynlegt að breyta þeim nöfnum, nafnspjöldum og öllu sem því tilheyrir til að það ráðuneyti geti síðan dottið inn í innanríkisráðuneytið. Menntamálaráðuneytið heitir núna mennta- og menningarmálaráðuneyti. Samgönguráðuneytið hét um tíma samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti en er núna orðið innanríkisráðuneyti. Efnahags- og viðskiptaráðuneyti hét áður viðskiptaráðuneyti.

Með þeim röksemdum að það væru of mörg lítil ráðuneyti á Íslandi tóku menn sig síðan til og tóku tvö stærstu ráðuneytin, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið, og sameinuðu þau — af því að það eru svo mörg lítil ráðuneyti á Íslandi. Þetta eina ráðuneyti, velferðarráðuneyti, er með u.þ.b. 50% af ríkisútgjöldunum.

Fyrrverandi hæstv. ráðherra Ragna Árnadóttir fór ágætlega yfir þetta í þætti í Ríkisútvarpinu á sínum tíma. Hún fór yfir hið augljósa, að þarna eru menn að færa völd frá stjórnmálunum, frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum, yfir til embættismanna. Svo sannarlega hefur það komið á daginn. En þetta er ekki nóg og það er ekki hægt að koma hér með frumvarp um breytingar á einstaka ráðuneytum. Nei, það gekk illa þannig að við skulum ganga í það verk, ef hæstv. forsætisráðherra nær sínu fram, að veita hæstv. forsætisráðherra völd til að breyta þessu. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað hefur stoppað núverandi ríkisstjórn í því að breyta ráðuneytum fram til þessa á tveimur og hálfu ári? Þykja mönnum þetta ekki vera nógu miklar breytingar sem ég nefndi hér? Ég held að það séu meiri breytingar á síðustu tveimur og hálfu ári en hafa verið á áratug, jafnvel tveimur áratugum.

Nú gæti einhver spurt: Bíddu, hefur þetta ekki skilað alveg gríðarlega góðum árangri? Er þetta ekki allt annað líf eftir að við breyttum nafninu á dóms- og kirkjumálaráðuneyti yfir í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og síðan yfir í innanríkisráðuneyti? Er ekki bara allt annað ástand í þessum málaflokki? Nei, virðulegi forseti, það er ekki alveg þannig. Þess sjást ekki merki neins staðar að þessar breytingar í stjórnkerfinu hafi skilað sér fyrir fólkið í landinu, það er bara ekki nokkur leið.

Ég er í miklum samskiptum við fólk í heilbrigðisgeiranum. Það ber öllum saman um það, öllum, að eftir að þessi tvö ráðuneyti voru sameinuð hefur boðleiðin að ráðuneyti heilbrigðismála lengst til muna. Menn finna minna fyrir stefnumótun og var ekki mikið fyrir af henni í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er erfitt að fá svör og lengri boðleiðir eru náttúrlega fullkomið klúður í því litla þjóðfélagi sem við búum í. Það er ekkert sem bendir til þess að þessi breyting hafi skilað árangri.

Það er áhugavert, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur fannst alveg toppurinn á tilverunni þegar hún var félagsmálaráðherra að menn brutu upp heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið vegna þess að það þótti of stórt og færðu tryggingamálin yfir í félagsmálin. Það eru þrjú eða fjögur ár síðan og á þeim tíma þóttu afskaplega mikil málefnaleg rök fyrir þessu. Núna, þegar hæstv. ráðherra er í annarri stöðu, gilda allt önnur rök sem eru í rauninni þvert á þau rök sem hæstv. ráðherra notaði á sínum tíma.

Síðan er farið í þennan leiðangur til að losna við Jón Bjarnason, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Af hverju á að losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason? Vegna þess að hann trúði því sem var sagt, kannski í barnaskap sínum, að hv. þingmenn Vinstri grænna væru bara bundnir af samvisku sinni þegar kæmi að umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það var lagt þannig upp. Er ekki einhver tilbúinn til að leiðrétta mig ef ég hef rangt fyrir mér? Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason þekkir það nú, var það ekki þannig að menn væru hér óbundnir, hv. þingmenn Vinstri grænna, þegar kom að þessum aðildarviðræðum?

Í hinu mikla foringjaræði í þessari ríkisstjórn sem hefur gert það að verkum að hvorki meira né minna en þrír hv. þingmenn Vinstri grænna hafa yfirgefið þingflokkinn — og það er ekki bara út af foringjaræði í þeim flokki, heldur er það líka hjá hæstv. núverandi forsætisráðherra sem hv. þm. Birgir Ármannsson lýsti ágætlega með nokkuð myndrænum hætti í atkvæðaskýringum um ESB þegar hann lýsti því svo að hæstv. ráðherra hefði elt hér og snarað niður hv. þingmenn Vinstri grænna í öllum bakherbergjum og hótað þeim öllu illu ef þeir greiddu ekki atkvæði með aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að það stóð upp úr hverjum einasta manni, bæði hv. þingmanni og ég tala nú ekki um blessuðum álitsgjöfunum, alveg sama hvaðan þeir komu, að það þyrfti að minnka foringjaræðið í íslenskum stjórnmálum. Það var uppleggið og það var ein af ástæðunum sem menn töldu fyrir því að hér hefði orðið efnahagshrun, hvorki meira né minna.

Virðulegi forseti. Foringjaræðið hefur aldrei verið meira í íslenskri pólitík en núna. Þetta frumvarp er birtingarmynd þess því að enginn getur haldið því fram að lítið hafi verið gert af því að breyta hér um ráðuneyti á undanförnum síðustu missirum. Það hefur verið gert ótt og títt, skipt um nöfn á ráðuneytum, þau sameinuð og þetta hefur verið helsta verkefni núverandi ríkisstjórnar. En það er ekki nóg, það verður að vera hægt að gera þetta í byrjun viku, og í lok viku ef það hefur gengið illa eða breytingin ekki gefist nógu vel í byrjun viku. Þá þurfa menn ekkert að þvælast með þetta í gegnum þingið, það er alveg óþarfi að áliti hæstv. forsætisráðherra sem er flutningsmaður þessa frumvarps og undirbýr nú hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir andsvar. Eins og allir aðrir hv. þingmenn í þessum sal er ég mjög spenntur að vita hvert það verður (Forsrh.: Það þarf nú ekki að undirbúa hana undir það, það veit hv. þm.) — og fjörið verður vonandi eitthvert hér á eftir en við skulum sjá til.

Málið er alveg kýrskýrt og ég sakna þess að það er ekki minnst á hæstv. ráðherra Jón Bjarnason í þessu frumvarpi. Ég hef a.m.k. ekki séð nafnið í frumvarpstextanum eða í athugasemdum við frumvarpið og hljóta það bara að vera einhver mistök sem menn geta örugglega bætt fyrir við umfjöllun nefndarinnar og komið — (SKK: Það er heiðarlegra að nafngreina hann.) Já, það er miklu heiðarlegra að setja inn nafn hæstv. ráðherra og kannski kennitölu líka, það er miklu hreinlegra.

Virðulegi forseti. Það er í besta falli kómískt í ljósi þess að þessi ríkisstjórn er búin að breyta um nöfn á ráðuneytum ótt og títt, búin að sameina og sundra verkefnum hér, að halda því fram að það sé einhver sérstakur vandi að framkvæma slíka hluti.

Menn nálgast hér því miður ekki það sem er nauðsynlegt, sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir varðandi breytt vinnubrögð í Stjórnarráðinu. Það er alvörumál sem við þyrftum að ræða. Það tengist ýmsu, m.a. starfsmannamálum, verkefnum og ýmsu slíku. Ég er til í að taka þátt í þeirri umræðu hvenær og hvar sem er, þeirri vinnu ef út í það er farið, því að þar má sannarlega margt bæta en ég hef séð það að útgangspunkturinn í þeim breytingum sem hæstv. ríkisstjórn hefur farið í hefur fyrst og fremst verið pólitísk hrossakaup og hrókeringar á ráðherrum en afskaplega lítið hefur farið fyrir faglegri vinnu.

Ég minnist þess þegar við sameinuðum heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti í eitt ráðuneyti að þá spurði ég hvað eftir annað eftir málefnalegum rökum fyrir því. Það var talað um að þetta sameinaði svo margar stofnanir. Ég fékk engin svör við því, ekki nokkur, ekki um vorið þegar það var lagt fram og svo átti að vera mikil vinna um sumarið og allir flokkar að koma að því en því var algjörlega sleppt. Þetta var síðan klárað á septemberþinginu og ég kallaði eftir því í þingsal, sömuleiðis í hv. heilbrigðisnefnd, og það komu aldrei nein svör, það kom aldrei niðurstaða neinnar vinnu sem segir meira en flest um málið. Þetta hafði allt annað markmið en að vinna faglega að málunum.

Sama er upp á teningnum hér, þetta snýst um Evrópusambandið og eins og ég sagði áðan hefði verið miklu hreinna að setja nafn hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar inn í frumvarpsdrögin eða athugasemdir með frumvarpinu í staðinn fyrir að fara í þessa vegferð með þessum hætti.