139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:16]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alla vega áhyggjuefni að Evrópusambandið sé að skipta sér af málum sem þessu tengjast, hvernig Stjórnarráð Íslands er og hvernig ráðuneytaskipan er og annað því um líkt, og af hverju embættismenn í Evrópusambandinu eru að álykta um þessi mál. Það skýrir kannski þann mikla asa sem er á þessu máli og í rauninni hversu hart það hefur verið keyrt fram. Þessi gögn sýna fram á það og eins þetta minnisblað, ef rétt reynist sem hv. þingmaður nefnir hér að í þessu sama minnisblaði eða drögum að ályktun sé jafnframt fjallað um það að aðlaga þurfi í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Ja, þá þarf nú ekkert miklu flóknari skýringa við og gæti kannski verið rétt sem hv. þingmaður sagði áðan að kannski hefði verið heppilegra að frumvarpið væri ekki í þessum felubúningi.

Mig langar að beina því til hv. þingmanns að hér hefur verið mikið talað um aukið foringjaræði og að íslensk stjórnmál séu með þeim hætti að ekki sé nægilega skilið á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds o.fl. í þeim dúr. Þetta tók rannsóknarskýrsla Alþingis og þingmannanefndin í framhaldi af henni til sérstakrar umfjöllunar. Talsvert hefur verið talað um það af hálfu þeirra sem tala fyrir þessu frumvarpi að frumvarpið sé með einhverjum hætti til komið til að bregðast við því og minnka foringjaræðið og efla þessi mál. Finnst hv. þingmanni ekki skjóta töluvert skökku við að lausnin á því sé sú að færa vald frá Alþingi Íslendinga til forsætisráðherra sem hafi algjört einræðisvald yfir því hvaða ráðuneyti séu starfandi og hvaða verkefni og annað séu undir þeim? Telur hv. þingmaður, af því að forsætisráðherra vitnaði til þess, að mögulegt verði fyrir ríkisstjórnina og forsætisráðherra að sækja mikið fylgi til stjórnarandstöðunnar og kannski Sjálfstæðisflokksins, flokks hv. þingmanns, í þessu máli?