139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:18]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að upplýsa mig um það hvaða hópi ég tilheyri og þakka honum andsvarið. Það er alveg hárrétt, ég er í stjórnarandstöðu og hef reynt að rækja störf mín þar af samviskusemi. Ég hef enga trú á því að stjórnarandstaðan ljái máls á þessu máli eins og það er búið í hendur hennar. Það er alveg ljóst að skoðanir eru skiptar meðal flutningsmanna frumvarpsins og þeirra sem gagnrýna það á því ákvæði sem lýtur að túlkun á niðurstöðum rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er full þörf á því við vinnslu þessa máls að allsherjarnefnd fái utanaðkomandi álit á því hvernig þetta samræmist þeim áherslum sem þar liggja fyrir, þannig að þingið og framkvæmdarvaldið þurfi ekki að standa í karpi um skilning hvors um sig á jafneinföldum hlutum og um er að ræða. Mér finnst þetta bera vott um þá átakapólitík sem því miður hefur einkennt störf ríkisstjórnarinnar alla tíð. Þannig varð hún til í búsáhaldabyltingunni, hún varð til í ágreiningi og látum. Þegar rætt er um foringjaræði er það alveg rétt að þetta ber ákveðinn keim af því.

Hér hefur verið nefnd tilskipunin og vinnulagið í Icesave o.s.frv. Hvernig á annað að vera þegar við horfum á reynslu þeirra sem stýra málum af hálfu meirihlutaflokkanna? Hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra úr Samfylkingunni og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra úr Vinstri grænum. Þarna er samanlagt hátt í 100 ára reynsla í plotti á Alþingi. Við erum fangin mestan part, þingið, í höndum þessa ágæta fólks, það byggir á aldagömlum hefðum. En grundvallaratriðið er hins vegar það að það ráða ekki allir við að leika þetta hlutverk, að vera foringi. Því miður ber reynslan af ríkisstjórninni (Forseti hringir.) því vitni að enginn úr þessum fjórmenningahópi ræður við það hlutverk sem hann þykist ætla að leika.