139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Auðvitað tengist þetta allt saman. Eins og ég kom að í fyrra andsvari eru þetta listaspilarar, þessir fjórir hæstv. ráðherrar sem ég nefndi hér áðan, og kunna þessa klæki alla saman. Því miður lét forusta Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teyma sig á þennan veg aðlögunar að Evrópusambandinu. Enn hefur það ferli ekki verið stöðvað af Vinstri grænum þó svo að nokkrir hafi hrokkið fyrir borð á þeirri vegferð þeim megin, einfaldlega af þeirri ástæðu að þeir lýstu því yfir að þeir vildu ekki lengur vera lögafgreiðslumenn fyrir þá meirihlutastjórn sem þarna er. Þetta er allt einn vefur sem er ofinn dag frá degi og tengist allt með þeim hætti sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason greindi hér frá.

Nýjasta dæmið í þessum spuna sjáum við á vefmiðlum í dag. Hæstv. forsætisráðherra hefur líkt þessu starfi sínu við það að smala köttum. Enginn forustumaður sem vill láta taka sig alvarlega ræðir málið með þeim hætti. Nú er dýralíkingin komin enn lengra. Á Eyjunni segir stjórnarþingmaður um væntanlegt frumvarp um fiskveiðistjórnarmál, með leyfi forseta:

„Það var eins og hópur simpansa hefði skrifað það.“

Ég veit ekki út í hvaða ævintýri núverandi stjórnarmeirihluti er kominn, en dýraríkið fer nú fljótlega að verða fullnýtt í þeim líkingum þegar menn fara í málatilbúnaði sínum að varpa einhverjum ímynduðum sökum hver á annan. Það er með ólíkindum að verða vitni að því hvernig tveir ábyrgir (Forseti hringir.) stjórnmálaflokkar, eins og maður vill ætla þeim að vera, koma fram hvor við annan.