139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég hefði gjarnan viljað að hann væri mun ákveðnari, en það mun sjálfsagt koma síðar. Mér finnst full ástæða til að skerpa á því með ákveðnum hætti að hv. þingmaður geri okkur mjög ákveðið grein fyrir því hver hugur hans er í þessu máli.

Hv. þingmaður vitnaði í grein eftir hæstv. innanríkisráðherra um að skerpa þyrfti á forustuhlutverki forsætisráðherra. Af ræðu hv. þingmanns mátti skilja að innanríkisráðherra hefði verið að mótmæla texta sem kom fram í að minnsta kosti einu ef ekki tveimur nefndarálitum sem unnin voru. Ég velti því fyrir mér, og langar að spyrja hv. þingmann út í það, hvort hann telji að árið 2010, sem þarna var líklega, hafi innanríkisráðherra þegar opinberað þær staðreyndir sem við ræðum hér um þetta frumvarp, hvort þá þegar hafi verið ljós sá ágreiningur sem greinilega er innan ríkisstjórnarinnar um þetta mikilvæga mál, sem er Stjórnarráðið. Þetta mál er vitanlega ekkert mikilvægt, það er Stjórnarráðið og lög um það sem skipta miklu máli.

Ég held að flestum, því miður ekki öllum, sé ljóst að eitt af markmiðum frumvarpsins er að sameina atvinnuvegaráðuneyti svokölluð í eitt ráðuneyti. Nú er það þannig að sjávarútvegur og landbúnaður eru hornsteinar í framleiðslusamfélagi okkar. Mig langar að heyra skoðanir hv. þingflokksformanns á því hver örlög sjávarútvegsins yrðu væntanlega inni í slíku ráðuneyti þar sem ekki er nú beysinn áhugi (Forseti hringir.) á honum þegar í dag, finnst manni, hjá ríkisstjórninni.