139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og efast í sjálfu sér ekkert lengur um skoðanir hans á þessu máli.

Ég hefði talið að breytingar á Stjórnarráðinu, svona viðamikið frumvarp eins og hér er verið að leggja fram, ætti að vinna — í frumvarpinu eru ákveðnir hlutir sem í sjálfu sér er rökrétt að breyta og fara í gegnum, ekki síst í ljósi þeirra rannsókna sem hafa verið unnar hér. Það er hins vegar þessi hluti sem snýr að valdsviði forsætisráðherra sem fer illa í þann sem hér stendur. Ég velti fyrir mér hvort við séum enn og aftur að verða vitni að því að böðlast sé fram með mál í stað þess að reyna að ná einhverri sátt milli þeirra er starfa hér á þingi, milli þingflokkanna, um einhverjar meginbreytingar sem bent er á í þeim skýrslum sem unnar hafa verið, t.d. rannsóknarskýrslu Alþingis og tillögur þingmannanefndarinnar. Hefði ekki verið nær að láta sérstaka nefnd fara yfir það eða kalla til fulltrúa allra flokka til að leggja fram þær breytingar sem eðlilegt er að gera? Það eru engin rök fyrir því að fara í þær breytingar sem snúa að valdsviði forsætisráðherra á grundvelli rannsóknarskýrslunnar. Þvert á móti sýnist mér að verið sé að fara öfugt að og auka oddvitaræði sem er svo mikið gagnrýnt í skýrslunni.

Við hljótum, hv. þingmenn, allir sem einn, að þurfa að velta því fyrir okkur hvort það sé ekki hluti af gamla tímanum að fara fram með eins veigamikið mál og þessi, mál sem við vitum að næsta ríkisstjórn getur breytt ef henni sýnist svo, og eyða tíma Alþingis í karp um þá hluti.