139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ef einstaklingar ætla að taka að sér ákveðið hlutverk verða þeir að sýna það og sanna að þeir hafi burði til að gegna því. Umræðuna um foringjaræðið og annað er óhjákvæmilegt að tengja tilteknum persónum. Mér finnst umræðan um foringja í íslenskri pólitík, að því leyti sem lýtur að meirihlutaflokkunum í ríkisstjórn Íslands, bera þess vitni að þeir tveir tilteknu einstaklingar, hæstv. ráðherrar, ráði ekki við þá ímynd sem er verið að búa til af þeim. Ég er í það minnsta þeirrar skoðunar að þegar hæstv. forsætisráðherra leggur fram eigið frumvarp og mælir fyrir því ætti meginreglan að vera sú, og ósköp einföld staðreynd, að hann væri með kláran meiri hluta fyrir því máli.

Varðandi hinn stjórnarflokkinn er brottfallið frá borði þeirrar skútu sönnun þess í mínum huga að það er eitthvað að þeim megin líka.

Ég held að full ástæða sé fyrir allsherjarnefnd að fara í gegnum þau atriði sem hv. þingmaður nefnir hér sem lýtur að því valdi sem verið er að færa forsætisráðuneyti. Í nokkuð ýktum skilningi gæti maður sagt að í þessu fælist að verið væri að búa til einn yfirráðherra sem hefði níu aðstoðarmenn. Það kann vel að vera að það sé eitthvert kerfi sem menn vilji hafa, en það hugnast mér ekki. Ég held að það auki ekki á skilvirkni, gegnsæi eða ábyrgð þeirra einstaklinga sem eiga að gegna ráðherradómi hér á landi að starfa sem aðstoðarmenn eins manns. Við skulum þá bara breyta (Forseti hringir.) kerfinu öllu og taka upp bandaríska kerfið og kjósa okkur forseta sem ræður sér sína ríkisstjórn. Það væri miklu heiðarlegra að taka (Forseti hringir.) upp þá tillögugerð ef menn ætla þessa leið.