139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að fjalla um fjölmörg mál, bæði í vetur og eins á fyrsta ári þessa kjörtímabils, sem voru langt í frá að vera forgangsmál. Við hefðum betur einbeitt okkur að þeim verkefnum sem lúta að skuldamálum heimila og fyrirtækja, atvinnusköpun og fleiru í þeim dúr.

Ég ætla hins vegar ekki að gera lítið úr því að það er nauðsynlegt að fylgja eftir rannsóknarskýrslu Alþingis og þingmannaskýrslunni og gera þær breytingar sem lúta að stjórnsýslunni. Hér er hins vegar verið að gera miklu fleiri hluti. Við fyrstu sýn virðist það vera svo að verið sé að færa meira vald til forsætisráðherra, m.a. að færa ákveðið vald frá Alþingi. Það voru alls ekki þær niðurstöður sem komu fram í rannsóknarskýrslu Alþingis, hvað þá í þingmannaskýrslunni, þar sem hið gagnstæða var frekar uppi á borðum, þ.e. að nauðsynlegt væri að efla og styrkja Alþingi og efla sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu.