139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Aðstoðarmaður forsætisráðherra ritaði grein í Fréttablaðið fyrir ekki svo mjög löngu þar sem hann fór yfir og reyndi að svara ýmsum af þeim aðfinnslum sem fram höfðu komið við áformaðar breytingar í Stjórnarráðinu. Það er í sjálfu sér óvanalegt þegar framkvæmdarvaldið tekur með þessum hætti þátt í umfjöllun Alþingis en hins vegar standa upp úr nokkur meginatriði í þessari grein sem gefa ágæta mynd af þeim athugasemdum sem uppi hafa verið um þetta mál frá því að það kom út í almenna umræðu og hefur í rauninni líka endurspeglast í þeirri gagnrýni sem kemur fram á frumvarpið hér í dag. Í grein aðstoðarmannsins er talað um gerræði, svo fagurt sem það er nú, og ég ætla ekki að leggja dóm á það. En því er haldið fram og þær athugasemdir gerðar að í þeirri heimild sem forsætisráðherra yrði veitt samkvæmt frumvarpinu felist sjálfdæmi um hvaða stjórnarmálefni hver ráðherra hefði. Það er rætt um nýja túlkun á stjórnarskránni og að vald sé fært frá Alþingi.

Það sem mér finnst mjög einkennilegt við þessa umræðu alla er það hversu mikið ber á milli manna í útleggingu á þessu máli. Nú var hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson í þingmannanefndinni og þekkir öll þau störf mjög vel. Því er haldið fram af flytjendum þessa frumvarps að þetta samræmist öllum þeim áherslum. Ég vil spyrja hv. þingmann, þar sem ég veit að hann er samviskusamur og mjög vel heima í málum, hverjar hann telur skýringarnar á þessum mismunandi skilningi (Forseti hringir.) eða þessari mismunandi túlkun annars vegar frumvarpsflytjendanna (Forseti hringir.) og hins vegar þeirra sem tóku þátt í störfum þingmannanefndarinnar.