139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:31]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni sem ég bar hérna upp: Getur þjóðin orðið aðili að Evrópusambandinu án þess að á undan fari fram atkvæðagreiðsla um það? Hann kom ekki með nein svör við þessari mjög einföldu spurningu: Getur Ísland orðið aðili að Evrópusambandinu án þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um það fyrst? Þetta er ekki flókin spurning, hv. þingmaður veit auðvitað svarið en það hentar ekki málflutningi hans að bera það upp hérna. Alveg eins hentar það ekki málflutningi hv. þingmanns að lesa upp ályktanir eigin flokksfélaga úr eigin kjördæmi, heldur lesa bara úr Suðurkjördæmi um landbúnaðarráðuneytið. Ég ætla að biðja hv. þingmann að lesa ályktanir Vinstri grænna á Akranesi og rifja upp fyrir okkur hérna hvernig ályktanir Vinstri grænna í Snæfellsbæ og Stykkishólmi og Grundarfirði hljóma. Það væri mjög skemmtilegt ef sú grasrót næði eyrum hv. þingmanns. (Gripið fram í.)