139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég get alveg sagt að þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðildina verður þjóðaratkvæðagreiðsla. Hún mun fara fram, það liggur ljóst fyrir. Hins vegar er mjög óeðlilegt að hér fari fram breytingar og annað í þessu ferli áður en að henni kemur og það hef ég ítrekað bent á. Þess vegna hefði verið eðlilegast að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla áður en þessar aðildarviðræður hæfust.

Hvað varðar ályktanir einstakra félaga Vinstri grænna, hvort sem það er í Suðurkjördæmi eða Norðvesturkjördæmi, á ekki við að ræða þær hér í dag. Þær eru ekki til umræðu hér í dag. En ég er í ágætu sambandi við marga af félögum mínum í kjördæminu og hef heyrt í mjög mörgu af þessu fólki, stuðningsmönnum mínum víða, stuðningsmönnum þess málflutnings sem ég hef haldið uppi. Ég hyggst halda honum áfram meðan ég finn fyrir þessum ríkjandi og vaxandi stuðningi við þennan málflutning alls staðar í samfélaginu.