139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Já, fyrst að fyrri punktinum sem hv. þingmaður var með og sneri að því hvort þessi sameining ráðuneyta, beint eða óbeint, tengdist eitthvað aðildarumsókn Íslands að ESB. Ég held að það hafi komið rækilega fram í umræðunni í dag að Evrópusambandið fagnar í það minnsta þessum stjórnarráðsbreytingum og breytingum í þá veruna hér. Af hverju er Evrópusambandið að skipta sér af þessu? Af hverju eru embættismenn í Brussel ásamt hugsanlega forustumönnum í utanríkismálum á Íslandi og embættismönnum innan utanríkisþjónustunnar að vinna drög að pappírum þar sem því er beinlínis fagnað að ráðist sé í sameiningu ráðuneyta og tengda vinnu? Maður gæti ætlað að Evrópusambandið ætti ekkert að skipta sér af þessu.

Er Evrópusambandið með fingurna hér á öllum málum? Er forgangsröðunarlisti ríkisstjórnarinnar þannig að það sem tengist þessu beint eða óbeint sé sett efst? Ég skal ekki segja, það dæmir hver fyrir sig.

Hvað varðar pólitíska stöðu frumvarpsins liggur náttúrlega fyrir að það nýtur a.m.k. ekki meirihlutastuðnings innan stjórnarflokkanna. Einn ráðherra er í það minnsta andvígur því og það hefur komið fram hér líka í dag að annar ráðherra hafi setið hjá við afgreiðslu þess. En afstaða hvers og eins þingmanns innan Vinstri grænna til frumvarpsins er ekki ljós.

Það sem ég hef velt upp í umræðunni í dag er hvort hugsanlega sé stuðningur við frumvarpið innan stjórnarandstöðunnar. Ég hef ekki orðið var við það í þeim umræðum sem verið hafa í gangi hér í dag þannig að pólitísk staða þessa frumvarps hlýtur að vera vægast sagt mjög veik og maður hlýtur að velta fyrir sér af hverju menn komi fram með svo stórt og mikið frumvarp (Forseti hringir.) án þess að vera búnir að kanna hinn pólitíska jarðveg.