139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:03]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt málefnalega ræðu. Mér heyrðist hann helst sakna þess úr frumvarpinu að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sé ekki lagt niður.

Ég mótmæli því að ríkisstjórnin sitji í skjóli valdafíknar og valdagræðgi eins og fram kom í máli hv. þingmanns. Það er einfaldlega svo að fram fóru kosningar í landinu og þeir tveir flokkar sem nú sitja við stjórnvölinn fengu meiri hluta í þeim kosningum. Menn þurfa ekki að hafa fylgst með stjórnmálum í langan tíma til að vita hvers lags tíðindi það eru í íslenskri stjórnmálasögu að vinstri menn fái hreinan meiri hluta á Íslandi og er það til marks um hversu rækilega fyrrverandi stjórnarflokkar misstu niður um sig buxurnar við stjórn landsins þannig að því sé vel til haga haldið, (Gripið fram í: Samfylkingin var í stjórn.) þeir stjórnarflokkar sem áður fóru með völd, hvort sem það eru Framsóknarflokkur, Samfylkingin eða Sjálfstæðisflokkur. Það er hins vegar alveg greinilegt hverjum kjósendur vildu refsa í því skyni.

Ég vil spyrja hv. þingmann um það sem hann segir um efnisinnihald frumvarpsins. Hér er verið að festa í sessi ráðningarferli ráðuneytanna með hæfnismati, hæfnisnefndum og hæfniskröfum. Hvað finnst honum um að fara beinni leið að þessu markmiði og skýra ábyrgðartengsl í ráðningarferlinu þannig að það sé einfaldlega ráðherra sem ákveði hverjir séu meðal æðstu embættismanna ráðuneytanna og komi þangað til starfa þannig að ekki sé verið að búa til atburðarás þar sem hæfnisnefnd fer yfir og gefur frá sér eitthvert hæfnismat þegar allir vita að á endanum eða alla vega í upphafi setji ráðherrann sjálfur hæfnisskilyrði? Oft er það svo eða hefur verið í gegnum tíðina að umsóknir hafa nánast verið klæðskerasniðnar í kringum ákveðna umsækjendur. Er þá ekki hreinlegra að einfalda ferlið þannig að það sé ráðherrann sem beri ábyrgð á ráðningunni?