139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svara hreint út: Ég er algerlega ósammála þessu og mín skoðun er að þetta eigi ekki að vera svona. Mér finnst að hæstv. ráðherrar eigi ekki að vera með puttana í ráðningarferlinu. Mín skoðun er að eðlilegra væri ef menn væru með sterkara stjórnsýslustig sem segði: Ráðið er í heild inn í Stjórnarráðið sem slíkt og í öll ráðuneytin og til þess er valnefnd. Þá teldi ég að faglegar yrði staðið að ráðningum.

Hv. þingmaður bendir réttilega á að oft og tíðum eru auglýsingar og skilyrði fyrir umsóknum klæðskerasaumuð fyrir ákveðna einstaklinga. Ég teldi til að mynda að það mundi breytast ef ráða ætti ákveðinn starfsmann í ráðuneyti að hæstv. ráðherra á hverjum tíma gæti tekið með sér ákveðinn fjölda inn í ráðuneytin, hvort það væru tveir, þrír, fjórir eða fleiri, misjafnt eftir ráðuneytum jafnvel og alla vega, og þeir færu þá aftur út með viðkomandi ráðherra. Það teldi ég skynsamlegt af því að það er vont að standa í pólitískum ráðningum eins og við höfum upplifað í gegnum tíðina, þeir einstaklingar sitja eftir í Stjórnarráðinu eða í ráðuneytunum.

Hvað varðar það sem ég sagði og hv. þingmaður mótmælti, að ríkisstjórnin sæti vegna valdafíknar eða valdagræðgi, þá var ég að reyna að draga óeininguna fram, eins og þegar hæstv. ráðherrar segja að það sem stendur í stjórnarsáttmálanum sé bara bölvað rugl og vitleysa og standi ekki til að gera og hæstv. forsætisráðherra segir að þessar breytingar eigi að taka gildi í mars og nú er kominn maí. Þá vil ég benda á hvernig málið er lagt fram og þá óeiningu sem þegar er innan hæstv. ríkisstjórnar og innan þingflokkanna um það hvernig þetta mál kemur inn í þingið. Það er það sem ég var að benda á í ræðu minni.