139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:07]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Annað sem kviknar í huga mínum eftir að hafa hlustað á andsvar hv. þingmanns eru áhyggjur stjórnarandstöðunnar af pólitískri stöðu þessa máls sem er síendurtekið hér.

Nú er það einfaldlega svo að meiri hluti situr við völd á Íslandi. Lagt er fram frumvarp sem fer til efnislegrar umræðu, umsagnar og meðferðar í allsherjarnefnd. Þar mótast væntanlega afstaða þingmanna til málsins eftir því sem upplýsingar berast og eftir því sem menn kryfja það til mergjar. Það er væntanlega ekki svo að þeir þingmenn sem sitja í stjórnarandstöðu séu sífellt að velta fyrir sér hvort þeir séu með meiri hluta fyrir þeim málum sem þeir flytja. Ég held að svo sé ekki. Ég held einfaldlega að menn flytji þau mál sem þeir hafa pólitíska sannfæringu fyrir og reyni svo að vinna þeim málstað fylgis. Er ekki svo?