139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu. Hann fór yfir og rakti ýmsar hugmyndir sem tengjast þessum málum og eru í marga staði fínar hugmyndir.

Mig langar hins vegar að nefna við hv. þingmann að við höfum ákveðna handbók sem heitir Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa og er gefin út af forsætisráðuneytinu, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og skrifstofu Alþingis í nóvember 2007, þar sem fjallað er um ýmislegt sem snýr að því hvernig frumvörp skulu unnin, almenn lagafrumvörp og önnur. Meðal þess sem þar kemur fram er undirbúningur og gerð frumvarpa og pólitískt samráð. Mig langar að velta því upp hvort hv. þingmaður telji ekki eðlilegt, og í ljósi þess líka að hann og fleiri hafa viðrað ýmsar ágætar hugmyndir, að þetta mál hefði verið unnið þverpólitískt. Fyrr á þessu þingi voru uppi deilur um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Er ekki eðlilegt að slík mál séu unnin þvert á flokka? Er ekki eðlilegt að hv. þingmaður, sem er með ágætar hugmyndir, hefði komið að vinnunni og að málið hefði komið fram með öðrum hætti? Telur hann heppilegt að mál séu lögð fram eins og stjórnarráðsbreytingarnar nú?