139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hið góða við svona langar umræður er að þegar maður tekur til máls þá áttar maður sig stundum betur á hlutunum og því sem maður vill kannski að komi fram og vill fá svör við. Hv. þingmaður vék að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan og þeim tillögum, sem mér sýnist að hér sé verið að lauma í gegn, að leggja það embætti niður. Þó að ég sé ekki alltaf sáttur við ákvarðanir hæstv. ráðherra þá held ég að hæstv. ráðherra sé að reyna að hafa einhverja skynsemi í sjávarútvegsmálunum í dag, ég vil bara að það komi fram. Hinn stjórnarflokkurinn leggur alla vega ekki mikið til þeirra mála.

Það var athyglisvert sem hv. þingmaður nefndi varðandi starfslið ráðherra, þ.e. að það fylgi ráðherranum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverja skoðun á því hvernig það skuli útfært, af því að það er þó nokkurt mál að koma með heilt starfslið inn í ráðuneyti.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort honum þyki það ekki skrýtið að í frumvarpinu sjálfu sé hvergi minnst á neitt ráðherraembætti með heiti nema forsætisráðherra og forsætisráðuneyti, annars er bara rætt um ráðherra eða ráðuneyti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi rekið augun í þetta og hvað þetta kunni að þýða. Undirstrikar þetta ekki það sem við höfum verið að halda fram að verið sé að fela hæstv. forsætisráðherra, á hverjum þeim tíma sem þessi lög gilda, vald til að ráðskast með þetta eins og hann helst vill?