139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi ekki misskilið neitt, ég vona að hv. þingmaður sé ekki fylgjandi því að frumvarpið líti út eins og það er hvað varðar valdheimild til forsætisráðherra til að ráðskast með einstök ráðuneyti, hvað þau heita og að hverju þau eiga að starfa og slíkt.

Í núgildandi lögum er í 4. gr. kveðið á um heiti á ráðuneytum. Ég hafði haldið að það væri í raun betra, út af áhyggjum okkar af þinginu, að fella út það sem þar stendur í dag um að heimilt sé að sameina ráðuneyti með forsetaúrskurði. Þar af leiðandi hefði þingið klárlega það í hendi sér hvernig skipa ætti ráðuneytin.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt að við styrkjum þingið. Þetta frumvarp er ekki til þess fallið.