139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:43]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur verið bent á það í umræðunni í dag að þetta frumvarp geti ekki verið hluti af viðbrögðum við rannsóknarskýrslu Alþingis. Það kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra að það hefði verið í undirbúningi í forsætisráðuneytinu síðustu tvö árin þannig að það gengur ekki upp. Auk þess telja margir sem hér hafa talað það ekki samræmast rannsóknarskýrslunni að færa vald frá Alþingi til forsætisráðherra, það feli frekar í sér aukna miðstýringu eða foringjaræði eins og sumir hafa komist að orði.

Það sem mig langar að velta upp við hv. þingmann er: Hvað telur hann að búi þarna að baki? Hvað er það sem drífur þetta mál áfram með slíkum krafti að ekkert annað megi ræða eins og komið hefur fram í umræðunni í dag? Af hverju leggur hæstv. forsætisráðherra svona mikla áherslu (Forseti hringir.) á þetta mál þegar mörg önnur stærri og meiri mál bíða? Hvað telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að ráði þessu?