139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Yfir mig hefur komið mikil sanngirni núna þannig að ég ætla að segja það bara að auðvitað ætlaði ég ekki hæstv. forsætisráðherra eða ríkisstjórninni eitthvað sérstaklega vondan hug í þessum efnum. Ef við bara skoðum málin efnislega er ætlunin með því sem núna er ákveðið með lögum frá Alþingi að það verði framvegis ákvarðað af framkvæmdarvaldinu. Það þýðir á mæltu máli að verið er að taka verkefni frá löggjafarvaldinu og færa yfir til framkvæmdarvaldsins. Það er alveg sama hvernig menn horfa á það, það hljóta menn að skoða þannig að það sé verið að veikja löggjafarvaldið en efla framkvæmdarvaldið.

Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé sérfræðingur í því sem rannsóknarnefnd Alþingis sagði, en ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvert sérstakt hugðarefni rannsóknarnefndar Alþingis eða komið fram sem einhver sérstök hugsjón þaðan að það ætti að efla framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafarvaldsins. Það er nokkuð sem a.m.k. mig rámar ekki í.