139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Mig langar aðeins að fara yfir þetta mál eftir daginn í dag og eftir þessa löngu og um margt ágætu umræðu.

Það liggur ljóst fyrir að ekki er stuðningur við málið meðal ríkisstjórnarflokkanna. Í máli hæstv. forsætisráðherra kom fram, bæði fyrr í dag og eins í umræðum í fjölmiðlum, að hún treysti því að þingmenn innan stjórnarandstöðunnar mundu styðja málið þegar þeir sæju hve gott það væri. Augljós tenging er á milli þessa máls og Evrópusambandsumsóknarinnar, Evrópuþingmenn og embættismenn í Brussel hafa í það minnsta metið það svo. Þetta er eina leiðin til að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Það liggur líka ljóst fyrir eftir umræðuna í dag af máli margra þingmanna að þetta frumvarp er ekki lagt fram í þeim tilgangi að bregðast við niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar þar að lútandi. Það hefur allt verið hrakið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann finni fyrir þessum gríðarlega jákvæða vindi í garð frumvarpsins og þessari jákvæðni innan stjórnarandstöðunnar fyrir frumvarpinu. Telur hann ekki jafnframt að mál eins og þetta, sem snýst um töluvert miklar breytingar á Stjórnarráðinu og í raun nokkuð sem þarf að undirbúa og endist lengur en lífi einnar ríkisstjórnar, hefði átt að vinna meira þverpólitískt? Er sá farvegur sem hæstv. forsætisráðherra hefur nú sett málið í vel til þess fallinn að landa málum sem þessum á þverpólitískum grunni?