139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það megi til sanns vegar færa sem hv. þingmaður segir. Umræðan um þetta frumvarp í dag hefur leitt í ljós að þessu frumvarpi hæstv. forsætisráðherra hefur ekki verið tekið fagnandi. Það var kannski við því að búast þegar maður hafði frétt af því að einn hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni hafði lýst andstöðu sinni við málið og annar hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni hafði gert við það mikla fyrirvara. Svo hefur komið í ljós að annar stjórnarflokkurinn afgreiddi það frá sér eða heimilaði framlagningu með miklum fyrirvörum. Á þessu er enginn bragur.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni að auðvitað væri miklu heppilegra ef menn hefðu haft með sér þverpólitískt samstarf um það með hvaða hætti ætti að haga starfsemi framkvæmdarvaldsins til framtíðar og reynt að draga alla að borðinu til þess að fá einhverjar hugmyndir um það hvernig menn sæju starfsemi framkvæmdarvaldsins fyrir sér í náinni framtíð. Það var ekki gert. Hæstv. forsætisráðherra hafði engan áhuga í þessu máli frekar en öðrum að ræða t.d. við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ekki minnsta áhuga á því. Það finnst mér furðulegt. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að vel komi til greina að fækka ráðuneytum og spara í stjórnsýslunni en ég vil þá gera það í sátt, bæði við þingmenn annarra flokka og þær atvinnugreinar sem ráðuneytin þjónusta og sinna. Hæstv. forsætisráðherra, sem er ábyrgðarmaður og fyrsti flutningsmaður þessa máls, virðist alltaf velja stríð þegar friður er í boði. Það er sorglegt þegar menn reyna að marka einhverja stefnu til framtíðar varðandi (Forseti hringir.) starfsemi handhafa ríkisvaldsins.