139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur vel á vondan vegna þess að hv. þingmaður er í rauninni að biðja mig um að útskýra fyrir sér hvers vegna embættismenn Evrópusambandsins hlutast til um málefni okkar Íslendinga. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn og stýrir sínum málum sjálft, a.m.k. enn þá eða meðan Ísland hefur ekki gengið í Evrópusambandið. Evrópusambandið hefur ekkert með það að gera hvernig við stýrum okkar málum og hvernig við högum stjórnsýslu okkar.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins ætlaði sér að samþykkja, a.m.k. forusta þeirrar nefndar, ályktunardrög þar sem því er sérstaklega fagnað að íslenska ríkisstjórnin væri að fara í stjórnsýsluumbætur eins og það er kallað í þessum ályktunardrögum. Þar er sameining ráðuneyta sérstaklega tiltekin. Það helst auðvitað í hendur við það frumvarp sem við ræðum. Það er mjög alvarlegt mál ef Evrópusambandið hlutast með þessum hætti til um málefni sjálfstæðra ríkja. Ég veit ekki hvort íslenska þingið ætti að koma með krók á móti bragði og álykta um ýmis innri mál Evrópusambandsins, stjórnsýslu Evrópusambandsins og stefnu þess í ýmsum málaflokkum. Það væri jafn vel við hæfi og framganga Evrópusambandsins gagnvart Íslandi hefur verið og lýsir sér í þessum ályktunardrögum.

Ég hef fulla skömm á því að Evrópusambandið sé að kássast upp á okkur (Forseti hringir.) Íslendinga og segja okkur fyrir verkum varðandi það hvernig við högum stjórnsýslu okkar (Forseti hringir.) eða meginatvinnugreinum.