139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og svör við þeim fyrirspurnum sem hafa komið. Hann gerði stuðning ríkisstjórnarinnar hér á Alþingi að umtalsefni áðan. Gallupkönnun sem var birt í dag sýndi líka eitthvað minnkandi stuðning við ríkisstjórnina úti í samfélaginu. Það hlýtur að vera áhugavert.

Mig langar að spyrja hv. þingmann og ég spurði reyndar að því áðan, varðandi það sem maður áttar sig á þegar frumvarpið er lesið ofan í kjölinn, af hverju eingöngu eitt ráðuneyti ber heiti í frumvarpinu, þ.e. forsætisráðuneytið, og öll heiti á hinum ráðuneytunum eru lögð niður eða í það minnsta ekki talin upp. Getur verið að það sé vegna þess að einhverjir flokkar þurfi að semja um hvernig skipting ráðuneyta verður þegar ríkisstjórn er mynduð? Undirstrikar það ekki fyrstu greinar þessa frumvarps, að forsætisráðherra er falið nánast alræðisvald yfir því hvernig málum er háttað? Auðvitað geta menn svo sagt að forsætisráðherra muni ekki einn ákveða það sérstaklega, en í þessum greinum er kveðið á um að forsætisráðherra geti tekið að sér að ákveða hvar einstökum málefnum er fyrir komið. Það er reyndar nokkuð sem ég mun koma að í umræðum um annað mál sem snýr að því sama, þ.e. nafnabreytingarnar sem verið er að gera. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skynjað heitin með sama hætti og ég. Mig langar líka að vita hvort hann taki undir það með mér að það sé stórvarasamt að færa einum ráðherra allt það vald sem verið er að gera í þessu frumvarpi og draga þar með úr völdum Alþingis.