139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:30]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað ber frumvarp hæstv. forsætisráðherra það með sér að með því er stefnt að aukinni miðstýringu og auknum völdum forsætisráðherra sem æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins. Bara það að taka úr lögum nöfn fagráðuneytanna og halda hæstv. forsætisráðherra í lagatextanum svona gínandi yfir öllu stjórnkerfinu ber þess merki að verið sé að færa aukin völd og hækka status hæstv. forsætisráðherra á kostnað annarra hæstv. ráðherra.

Af því ég veit að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson á eftir að koma aftur í ræðustól langar mig til að velta upp einni hugmynd sem hann getur þá fjallað um í seinni ræðu sinni. Ég nefni þetta vegna þess að hæstv. forsætisráðherra situr í hliðarsal og hlýðir á orðaskipti okkar. Hugmyndin er þessi: Hvað ætli hæstv. forsætisráðherra hefði sagt sem stjórnarandstæðingur á sínum stjórnarandstöðuárum ef þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, hefði lagt fram sambærilegt frumvarp þar sem einungis hæstv. forsætisráðherra væri getið í lögum um Stjórnarráð Íslands en aðrir hæstv. ráðherrar yrðu þurrkaðir út? Ég er hræddur um að stjórnarandstæðingurinn Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. forsætisráðherra, hefði kvartað yfir slíkum ráðagerðum og gert við þær alvarlegar athugasemdir og talað um einræðistilburði. En það gerir hún (Forseti hringir.) ekki nú. Ég bið hv. þingmann (Forseti hringir.) um að velta þessum möguleika fyrir sér. (Forseti hringir.) Hann getur jafnvel fjallað um þetta atriði (Forseti hringir.) í seinni ræðu sinni.