139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að skipan Stjórnarráðsins og æðstu stjórnsýslunnar sé ekki einkamál þeirra flokka sem eru í ríkisstjórn hverju sinni, þetta er málefni Alþingis. Þetta sagði ég þegar mér blöskraði framganga Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og ég var í stjórnarandstöðu og menn beittu þessu valdi þá. Mér blöskraði það og vildi að þá yrði leitað víðara samstarfs, það væri ekki mál þeirra eingöngu. Sama var þegar Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin voru í ríkisstjórn og beittu sér þar einhliða fyrir veigamiklum breytingum á stjórnsýslunni. Ég mótmælti því þá.

Ég tel að þetta sé mál þingsins og eigi að skipa í það frekar þingnefndir en annað, þetta er ekki bara einkamál þeirra flokka sem eru við stjórn hverju sinni þó að þeir hafi á því skoðun. Ég tel að þetta mál sem lýtur að stjórnsýslunni og Stjórnarráðinu eigi að vera mál þingsins.