139. löggjafarþing — 116. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, eins og hefur komið fram á þinginu áður hefur verið áhugi á því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Ég hef lagst gegn því. Það hefur ekkert með mína persónu að gera sem ráðherra, ég ber ábyrgð á þessum málaflokki og stöðu hans og tel að það vitlausasta sem menn gerðu væri að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Hvort þetta frumvarp hefur í sjálfu sér bein áhrif á það, um það skal ég ekki segja, en það fær heimild til að taka málaflokka frá einu ráðuneyti og flytja til annars, m.a.s. ókláraða málaflokka. Ég velti ekkert fyrir mér hvort það mundi bitna eitthvað harðar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eða öðrum ráðuneytum. Ég tel að svona heimildir eigi ekki að vera fyrir hendi, það skapi bara óvissu í stjórnsýslunni sem er okkar hlutverk að láta ekki gerast.