139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs og ræða aðeins við formann samgöngunefndar, hv. þm. Björn Val Gíslason, um forgangsröðun samgönguframkvæmda. Það var frétt í Morgunblaðinu í dag um að hjólin væru farin að snúast í samgöngumálum. Það er hið besta mál og eins var upplýst í þinginu í vikunni að staðið hefði til að bjóða út Vaðlaheiðargöng í gær sem er jafnframt hið ágætasta mál. Af því tilefni sagði hæstv. fjármálaráðherra það vera geysilega góða ráðstöfun að bjóða út Vaðlaheiðargöngin og í svari sem ég fékk frá þáverandi samgönguráðherra sumarið 2009 kom fram að Vaðlaheiðargöng væru með tæplega 8% arðsemi. Á sama tíma er arðsemi af framkvæmdum á Suðurlandsvegi allt frá 16% upp í 28% eftir því hvaða útfærsla er farin, eftir því hvort það er 2+2 eða 2+1 á einstaka köflum.

Því vildi ég ræða aðeins við formann samgöngunefndar um það hvernig við ættum að forgangsraða verkefnum. Til viðbótar því að þessi háa arðsemi var á framkvæmdunum er slysatíðni á umræddum Hellisheiðar- og Sandskeiðsvegi sú hæsta á landinu og ég spyr hvort ekki sé æskilegt að við forgangsröðum fjármunum til slíkra verkefna. Ég geri ekki lítið úr því að farið sé í önnur verkefni þar sem minni umferð er. Mér þótti það skondið sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra um daginn því að sama dag hafði borist svar frá honum við fyrirspurn minni um þær tekjur sem ríkið fær af umferð, m.a. á Suðurlandsvegi, og mér sýnist að umferðin á Suðurlandsvegi skili í ríkiskassann um 1,5 milljörðum á ári, þessum mörkuðu tekjum. Framkvæmdirnar stæðu fyllilega undir sér sjálfar af þeirri umferð sem þar er án þess að (Forseti hringir.) til kæmu veggjöld sem rætt hefur verið um og mundu þá flýta niðurgreiðslunni til þess að það yrði greitt á 7–8 árum. Er samgöngunefndarformaður (Forseti hringir.) sáttur við slíka forgangsröðun verkefna?

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmann á að virða tímamörk í þessari umræðu sem öðrum umræðum.)