139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að brydda upp á þessu máli, þ.e. forgangsröðun í samgöngumálum. Eins og staðan er í dag ræðst hún auðvitað fyrst og fremst af þeim fjármunum sem við höfum úr að spila til vegaframkvæmda sem eru verulega takmarkaðir eins og allir vita. Ef ég man rétt erum við að tala um á að fjárlögum nálgist upphæðin 6 milljarða til vegaframkvæmda sem er gríðarlegt fall frá því sem áður var þegar nýframkvæmdir og viðhald á vegum námu allt að 20 milljörðum á ári þegar mest var.

Forgangsröðun í samgöngumálum snýst fyrst og fremst um öryggismál, öryggi vegfarenda, um það að stytta leiðir á milli þéttbýlisstaða, að gera ferðalög um vegina öruggari og tryggari en er núna. Þess vegna er farið í sérstakar aðgerðir samkvæmt þeim lögum sem voru samþykkt á Alþingi í júnímánuði í fyrra og hafa verið kallaðar flýtiframkvæmdir sem hafa verið framkvæmdar og fjármagnaðar með öðrum hætti en vegamál að öðru leyti. Það hefur gætt ákveðins misskilnings í því í umræðunni að hætt verði við einhverjar þessara framkvæmda. Vaðlaheiðargöng voru nefnd áðan af því að það var verið að opna forvalsgögnin þar í gær og stendur til að bjóða þau út innan þriggja eða fjögurra vikna ef allt fer sem horfir. Það hefur gætt ákveðins misskilnings í því að ef hætt verður við þær framkvæmdir verði úr meiru fé að spila til annarra framkvæmda í landinu. Þannig er það ekki. Þá framkvæmd á að greiða með sérstökum gjöldum. Forgangsröðunin varðandi fjármagn það sem ríkið hefur úr að spila snýst fyrst og fremst um öryggismál, um að bæta þjónustu og það eru margir (Forseti hringir.) landshlutar sem hafa orðið út undan á undanförnum árum. Ég nefni Vestfirði sérstaklega í því sambandi og Suðurland að auki.