139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að brydda upp á tveimur þáttum sem lúta að verklagi í nefndum. Í fyrsta lagi er seinagangur sem stundum vill verða í nefndum og ég vitna sérstaklega til samgöngunefndar þar sem legið hefur í vetur brýnt mál sem varðar Helguvík. Upphaf þess var verkefni í framhaldi af brottflutningi bandaríska hersins til að bregðast við atvinnuleysi og mörgum vandamálum sem hafa hrjáð Suðurnesin um árabil og hefur ekki verið tekið mannsæmandi á af stjórnvöldum. Málið um Helguvík, sem um helmingur þingmanna er á og nokkuð augljós þingmeirihluti fyrir, er tafið í samgöngunefnd og hengt við hugsanlega nýtt frumvarp um hafnalög sem þó er algjörlega á frumstigi og varðar í rauninni ekki þetta mál sem tengist Helguvík. Það tengist núgildandi lögum og lagaákvæðum sem gilda út árið 2012. Mér finnst ástæða til að kvarta yfir þessu og benda á að þetta eru vinnubrögð sem hæfa ekki og eru ekki boðleg í nefndum þingsins alveg sama þó að menn reyni að færa það inn á að hugsanlega komi eitthvað nýtt fram í nýjum lögum. Samkvæmt upplýsingum í ráðuneytinu er þeirra þátta að vænta í fyrsta lagi næsta haust og menn geta ekki beðið eftir slíku endalaust. Það er fáránlegt.

Í öðru lagi, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) vil ég bara segja að það er ekki gott verklag hvernig ráðuneyti (Forseti hringir.) færa í auknum mæli vinnu inn í nefndir á frumstigi.