139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli hv. þingmanna á því sem er að gerast í skatttekjum ríkissjóðs. Ég hef verið að skoða þriggja mánaða uppgjör um það sem er að gerast í skattheimtunni hjá ríkissjóði og þar er glögglega komin í ljós skattpíningarstefna ríkisstjórnarinnar sem fór í þann leiðangur. Í þeim tölum koma fram glögg merki um mun minni einkaneyslu en reiknað var með. Það ber hæst að nefna samdrátt í virðisaukaskatti upp á rúmlega 2,1 milljarð, vörugjald af bensíni upp á 130 milljónir, áfengisgjald upp á 245 milljónir og aðra neyslu- og leyfisskatta upp á 640 milljónir. Þetta eru skýr dæmi um það hvaða áhrif það hefur að fara að skattpína heimilin í landinu þannig að ráðstöfunartekjurnar eru að sjálfsögðu miklu minni og var það auðvitað alltaf byggt á brauðfótum að ætla að hækka skattana en byggja samt hagvöxtinn að hluta til á einkaneyslu.

Ég vek líka athygli á því að á fyrstu þremur mánuðum ársins eru launagreiðslur ríkissjóðs komnar 1.240 milljónir fram úr áætlun sem þýðir að það eru rúmir 5 milljarðar á ári ef svo heldur áfram sem horfir. Ég set stórt spurningarmerki við þetta vegna þess að engin laun hafa verið hækkuð í landinu og ef niðurstaðan verður að launagreiðslur ríkisins fari rúmlega 5 milljarða fram úr áætlun sé ég ekki hvernig í ósköpunum við eigum nokkurn tímann að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Við erum með 37 milljarða halla, við setjum 15–18 milljarða í Íbúðalánasjóð, það vantar nokkra milljarða inn í Byggðastofnun o.s.frv. Ég hef af þessu verulegar áhyggjur, virðulegi forseti, og taldi sérstaka ástæðu til að koma þessu á framfæri (Forseti hringir.) og vekja athygli hv. þingmanna á þessum staðreyndum sem núna blasa við.